Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR var yfirvegaður þegar hann ræddi við mbl.is í Frostaskjóli í dag eftir að hafa horft upp á sína menn tapa 0:7 fyrir Víkingi á Íslandsmótinu í knattspyrnu.
Óskar segist taka ábyrgð á frammistöðunni en leggur áherslu á að KR-ingar láti ekki úrslitin hafa of mikil áhrif á sig þótt auðvelt sé að vera dramatískur eftir stórtap sem þetta. Þessi spilamennska hafi verið ólík KR-liðinu.
„Við vorum einhvern veginn ekki tilbúnir í þennan leik. Þá má alveg segja að flest hafi gengið upp hjá Víkingum sem gat gengið upp en á heildina litið þá var eins og mönnum liði ekki nógu vel inni á vellinum. Menn voru ekki öruggir á því hvernig þeir áttu að vera í vörninni og það er eitthvað sem ég tek ábyrgð á,“ sagði Óskar spurður um hvað fari í gegnum hugann eftir svona úrslit.
Framundan er lokakafli Íslandsmótsins þar sem fimm auka umferðir bætast við. Þá taka við afar mikilvægir leikir þar sem KR er í baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. Telur Óskar að hans menn sýni í næsta leik hvað þeir geta eftir að hafa fengið þennan skell? Gæti leikurinn haft slík áhrif?
„Maður veit aldrei hvernig svar maður fær eftir tapleiki. Við svöruðum til dæmis vel fyrir okkur eftir tapið gegn Val með því að spila vel á móti FH í næsta leik. Það verður að koma í ljós. Við vitum að þessi frammistaða var ekki nógu góð, hvorki hjá mér né leikmönnunum. Við þurfum samt að passa okkur á því að láta þessa frammistöðu ekki skilgreina liðið eða þá vinnu sem menn hafa lagt í þetta á þessu tímabili. Það er ekki auðvelt að vera ekki dramatískur og draga ekki einhverjar risa ályktanir eftir svona tap. Það er hins vegar mikilvægt að vita að þetta er ekki það sem KR-liðið hefur staðið fyrir. Ekki er þetta heldur frammistaða sem ég hef staðið fyrir sem þjálfari, þegar leikurinn er settur upp þannig að menn pössuðu illa í sínar stöður. Urðu óöruggir og að einhverju leyti litlir í sér. Við þurfum að skoða gaumgæfilega hvað fór úrskeiðis og bæta það,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.