„Þetta var ekki okkar besti leikur,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson fyrirliði ÍA eftir sigur liðsins á Aftureldingu, 3:1, á heimavelli í 22. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.
Með sigrinum fór ÍA upp úr botnsæti deildarinnar og er nú tveimur stigum á eftir KR og öruggu sæti eftir tvo sigra í röð.
„Menn voru að berjast og hlaupa. Það er stundum nóg í þessu. Þetta eru tveir sigrar í röð en þeir gefa okkur ekki neitt ef við ætlum að slaka eitthvað á núna. Það er gott að koma með sjálfstraust eftir skiptinguna,“ sagði Rúnar.
Afturelding fékk nokkur úrvalsfæri til að skora snemma leiks en Árni Marinó Einarsson varði nokkrum sinnum virkilega vel í marki Skagamanna.
„Við vorum skrefinu á eftir fyrstu 15-20 mínúturnar. Mér leið ekki sérlega vel. Við vorum að missa svolítið af þeim, telja vitlaust. Það skánaði svo út hálfleikinn.
Þeir nýttu ekki færin sín og Árni var frábær í markinu. Við náðum að laga vandamálin og sigla þessu heim.“
Fyrir sigurleikina tvo í röð var ÍA átta stigum frá fallsæti. Nú á liðið raunhæfa möguleika á að halda sér uppi.
„Staðan var orðin gríðarlega erfið. Við vorum á síðasta séns en nú er komið líf í þetta og við verðum að halda áfram. Við erum enn í fallsæti og menn mega ekki svífa of hátt.“
Rúnar hefur á farsælum ferli iðulega leikið sem miðjumaður. Hann hefur hins vegar þurft að leysa af sem miðvörður í síðustu leikjum og gert það mjög vel. Hann lagði upp tvö mörk í kvöld.
„Það er gaman og allt öðruvísi. Það er gaman að sjá völlinn svona vel. Maður upplifir leikinn öðruvísi. Þar sem þjálfarinn þarf á mér að halda, þar spila ég.
Loksins þegar ég færist aftar fer ég að leggja upp. Ómar bjargaði eiginlega því þetta var léleg fyrirgjöf en hann mætti á svæðið. Við vitum svo hvað Viktor er góður í loftinu. Ómar skoraði svo frábært þriðja mark,“ sagði hann.
Ómar Björn er búinn að skora fjögur mörk í síðustu sex leikjum eftir hæga byrjun á Akranesi.
„Hann er búinn að vera að bæta sig jafnt og þétt. Hann æfir aukalega að klára færin. Hann er búinn að vera einn úti á æfingasvæði og það er frábært að sjá hann uppskera,“ sagði Rúnar.