„Það verður sko alls ekki flókið“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur. mbl.is/Ólafur Árdal

Gunnar Heiðar Þorvaldsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með 2:1 sigur á Keflavík í fyrri leik liðanna í undanúrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu á næsta ári.

Seinni leikur liðanna verður á heimavelli Njarðvíkur á sunnudag. Spurður út í leikinn hafði Gunnar Heiðar þetta að segja við mbl.is:

„Ég er sáttur við að koma hingað til Keflavíkur og vinna leikinn 2:1. Ég hefði auðvitað viljað skora fleiri mörk og ekki fá þetta mark á okkur. Það er auðvelt að segja þetta allt eftir á. En núna strax eftir leik þá verð ég að vera sáttur við það sem gerðist í þessum leik.“

Þetta var náttúrulega bara fyrri hálfleikur og við eigum seinni leikinn bara strax á sunnudaginn og menn þurfa bara að græja sig strax í endurheimt og vera tilbúnir í næsta leik.“

Sókn er besta vörnin

Að fara með 2:1 forskot í seinni leikinn. Margir segja að það sé ekkert endilega betra að fara með eins marks forskot í seinni leik í umspili þar sem liðið sem er yfir í einvíginu hafi þá eitthvað til að verja. Hvað hefur þú að segja um slíkar vangaveltur?

„Já, það er alveg rétt. Maður er búinn að vera það lengi í þessu að mín fílósófía er sú að alltaf þegar þú ert að fara að verja eitthvað þá getur það reynst erfitt. Hins vegar er það þannig að við erum núna búnir að spila 22 leiki í deildinni og höfum fengið fæst mörk á okkur en við förum aldrei í neinn leik til að reyna verja eitthvað.

Við erum alltaf að sækja til sigurs. Gamla góða hugtakið að sókn sé besta vörnin er það sem við viljum spegla okkur í og það sem við erum að fara að gera á sunnudaginn.“

Er eitthvað sem kom þér á óvart í leik Keflavíkur í dag?

„Nei, við erum búnir að spila tvisvar við þá í sumar og síðast bara fyrir 10 dögum og það kom mér ekkert á óvart. Við vissum alveg hvað þeir kæmu með að borðinu og í svona leikjum þá eru það oftast litlu hlutirnir sem skera úr um hvort liðið skorar fleiri mörk. Mér fannst við vera ofan á, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Síðan í seinni hálfleik koma þessi væni vindur hérna á móti okkur. Ég veit ekki hvort að Keflvíkingar hafi verið búnir að lesa svona vel í veðurspána að þeir hafi vitað það en mér fannst þá koma svolítið mikil rót á okkar leik. En við börðumst bæði við Keflavík og mótvindinn. Þannig að við bara þjáðumst í þessar 45 mínútur og gerðum það vel.“

Búinn að vera besti leikmaður deildarinnar

Oumar Diouck fær rautt spjald í lok leiksins og er þar af leiðandi í banni í leiknum á sunnudag. Mun það hafa mikil áhrif á ykkar leik á sunnudag?

„Jú, klárlega. Oumar er búinn að vera frábær fyrir Njarðvík á þessu tímabili og er að mínu mati besti leikmaður deildarinnar í sumar. Hann gefur okkur gríðarlega mikið og við vitum alveg hvað við fáum frá honum.

En það er eins og í mörgum öðrum leikjum í sumar að þegar það meiðist leikmaður eða fer í leikbann þá erum við með þannig hóp að það eru allir klárir í bátana þegar við þurfum á því að halda og ég efast ekki um að það séu menn klárir til að koma inn og gera það sem þarf til klára leikinn á sunnudag.“

Hvernig sérðu fram á að mótivera liðið og undirbúa þá fyrir leikinn á sunnudag?

„Það verður ekki flókið. Það verður sko alls ekki flókið,“ sagði Gunnar Heiðar kíminn og hélt síðan áfram:

„Þeir eru að fara að mæta nágrönnum sínum úr Keflavík í enn eitt skiptið og með úrslitaleik á Laugardalsvelli í augsýn. Ég held að þetta verði einhver þægilegasti leikur til að mótivera leikmenn á þessu tímabili,“ sagði Gunnar Heiðar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka