„Ég ætla að segja þetta hreint út,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í Fyrsta sætinu.
Þorsteinn stýrði íslenska liðinu á Evrópumótinu 2025 í Sviss í sumar en þetta var hans annað stórmót með liðið eftir að hafa tekið við þjálfun þess í janúar árið 2021.
Íslenska liðið hefur fengið sinn skerf af gagnrýni á þessu ári þar sem liðinu hefur gengið illa að ná í úrslit, líkt og á EM, en Þorsteinn er á því að umræðan verði oft of neikvæð í kringum landsliðið.
„Stundum finnst mér eins og fjölmiðlar séu ekki með okkur í liði,“ sagði Þorsteinn.
„Þeir eru fljótir að snúa við okkur bakinu, það er mín tilfinning. Ég var að bera þetta saman við kvennalandsliðið í handbolta þegar þær voru á stórmóti. Ég fylgdist mjög vel með allri fjölmiðlaumræðu í kringum það mót.
Þær töpuðu öllum leikjunum í riðlinum og fóru svo í Forsetabikarinn. Þá fóru þær að vinna leiki og umræðan breyttist en þær voru aldrei gagnrýndar fyrir að tapa þessum leikjum. Ég er ekki að tala um að það megi ekki gagnrýna en mér finnst það stundum þannig að ef liðið tapar einum leik þá fer þetta mjög fljótt í mjög neikvæða umræðu,“ sagði Þorsteinn meðal annars.