Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta, fer ekki í felur með að hann sé mikill KR-ingur. Hann er uppalinn hjá félaginu og náði góðum árangri sem þjálfari karlaliðsins sömuleiðis.
Hann hefur áhyggjur af stöðu liðsins, sem er í mikilli fallhættu, sérstaklega eftir tap gegn ÍA í gær.
„Það er skelfileg tilhugsun fyrir mig að KR falli. Ég er KR-ingur þótt ég gefi 100 prósent í allt sem ég geri hjá Fram. Ég vil að Fram vinni alla leiki en mér er annt um KR og það væri hræðilegt ef liðið fellur. Ég hef samt alltaf sagt að KR falli ekki.
Þetta er það flott lið en einhvern veginn verður þetta alltaf svartara og svartara. KR-ingar verða að treysta á sjálfa sig og vonandi halda þeir sér uppi. KR verður alltaf mitt lið þó ég sé að þjálfa Fram. Við gerum allt sem við getum til að vinna KR þegar liðin mætast og það hefur tekist í öll skipti nema eitt,“ sagði Rúnar við mbl.is
