Davíð Smári Lamude er hættur störfum sem þjálfari knattspyrnuliðs Vestra.
Mbl.is hefur öruggar heimildir fyrir þessu og reiknað er með staðfestingu á hverri stundu. Fótbolti.net birti frétt sama efnis fyrir nokkrum mínútum.
Ekkert hefur gengið hjá Vestra frá því liðið varð bikarmeistari með sigri á Val á Laugardalsvellinum um miðjan ágúst. Frá þeim tíma hefur liðið aðeins fengið eitt stig í deildinni og tveir síðustu leikir hafa tapast stórt á heimavelli, 4:0 gegn ÍA og 5:0 gegn ÍBV.
Davíð Smári hefur þjálfað Vestra frá byrjun tímabilsins 2022. Liðið vann sér sæti í Bestu deildinni í fyrsta sinn haustið 2023, hélt sæti sínu þar 2024 og varð svo bikarmeistari í síðasta mánuði.
Uppfært kl. 21.23:
Davíð Smári hefur kvatt leikmenn Vestra og óskað þeim góðs gengis samkvæmt heimildum mbl.is en ekkert hefur verið staðfest formlega af stjórn knattspyrnudeildar félagsins sem hefur setið á fundi í allt kvöld.
