„Í mörgum tilfellum lítur leikmaðurinn verr út en ég“

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. AFP/Francic Coffrini

„Auðvitað vilja þær allar spila, sem er gott, og svo hafa þær sínar aðferðir þegar kemur að því að tjá sig um það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í Fyrsta sætinu.

Þorsteinn stýrði íslenska liðinu á Evrópumótinu 2025 í Sviss í sumar en þetta var hans annað stórmót með liðið eftir að hafa tekið við þjálfun þess í janúar árið 2021.

Flestar tala beint við mig

Dagný Brynjarsdóttir skaut á landsliðsþjálfarann í viðtali við mbl.is eftir lokaleikinn á EM gegn Noregi og var ósátt með að fá ekki að byrja þann leik en margir leikmenn liðsins spila með sterkum félagsliðum í Evrópu og eiga allir leikmenn landsliðsins það sameiginlegt að vilja spila allar mínútur.

„Flestar af þeim tala beint við mig, spyrja og við tökum létt spjall um þessa hluti á meðan einhverjar fara í fjölmiðla, það er bara þeirra leið,“ sagði Þorsteinn.

„Við vinnum eftir ákveðnum gildum innan hópsins og leikmenn þurfa að vinna eftir þeim gildum. Þetta er hluti af því að vera í hóp og umhverfi þar sem samkeppnin er mikil. Þú getur ekki verið að kenna öllum öðrum um ef hlutirnir eru ekki að ganga hjá þér.

Það er misjafnt hvernig leikmenn bregðast við þegar þeir eru ekki að spila og það er einstaklingsbundið,“ sagði Þorsteinn.

Tek þetta ekki inn á mig

Fer það í taugarnar á þér þegar leikmenn fara með svona hluti í fjölmiðla?

„Nei, það gerir það ekki. Ég tek það ekkert inn á mig og ég held að það sé meira fólk í kringum mig sem er að spá í þessu. Mér er alveg sama, ef leikmaður er þannig að hann þorir ekki að segja þetta við mig og vill frekar fara með þetta í fjölmiðla þá er það bara hans mál. Í mörgum tilfellum lítur leikmaðurinn verr út en ég,“ bætti Þorsteinn meðal annars við.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert