„Ég hugsa að tímabilið 2022 hafi verið betra, eflaust út af mínum persónuhögum,“ sagði knattspyrnukonan fyrrverandi Lára Kristín Pedersen í Dagmálum.
Lára Kristín, sem er 31 árs gömul, ákvað að leggja skóna á hilluna á dögunum eftir farsælan feril þar sem hún varð fimm sinnum Íslandsmeistari og þrívegis bikarmeistari.
Lára Kristín varð tvöfaldur meistari með Stjörnunni árið 2014 og svo aftur með Val árið 2022.
„Ég var búin að fara í meðferð og fá hjálp en allt fyrir þann tíma litast svo mikið af minni baráttu við sjálfa mig,“ sagði Lára Kristín.
„Árið 2022 er ég á allt öðrum stað persónulega. Ég man heldur ekki eftir því að hafa spilað skemmtilegri fótbolta en við gerðum þá,“ sagði Lára Kristín meðal annars.
