Flug Skagamanna heldur áfram

Hermann Þór Ragnarsson og Jón Gísli Eyland eigast við á …
Hermann Þór Ragnarsson og Jón Gísli Eyland eigast við á Hásteinsvelli í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍA fór með sigur af hólmi gegn ÍBV, 2:0, á Hásteinsvelli í 25. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.

Skagamenn eru því með 31 stig í níunda sæti deildarinnar á meðan ÍBV er áfram í sjöunda sæti með 33 stig. Skagamenn eru með þessum úrslitum og fimm sigrum í röð sama og búnir að tryggja sér áframhaldandi sæti í deildinni.

Eins og svo oft áður var ótrúlega mikill vindur í Vestmannaeyjum í dag og það hafði svo sannarlega áhrif á leikinn.

Heimamenn byrjuðu með vindinn í bakið og reyndu hvað þeir gátu að nýta sér það. Á 20. mínútu fékk ÍBV aukaspyrnu nokkrum metrum frá hornfánanum. Vicente Valor tók spyrnuna og reyndi skot sem vindurinn tók með sér og boltinn flaug að markinu, en Árni náði að verja í horn.

Á 34. mínútu átti Valor sendingu inn á teiginn þar sem Oliver Heiðarsson var staðsettur. Hann tók við boltanum með kassanum og bjó sér til skotfæri en setti boltann rétt svo yfir markið.

Oliver var stuttu seinna aftur í góðu færi til að skora. Jörgen Pettersen átti frábæra sendingu í gegnum vörn Skagamanna og Oliver var því kominn einn á móti Árna í markinu. Oliver reyndi skot sem fór beint á Árna og þar var illa farið með gott færi.

Fyrsta mark leiksins kom síðan á þriðju mínútu uppbótartíma. Þá datt boltinn fyrir Gísla Laxdal Unnarsson sem var staðsettur fyrir utan teig hægra megin við markið. Þrátt fyrir að vera á móti vindi átti hann skot sem fór undir Marcel sem hefði átt að gera betur og boltinn því söng í netinu, 1:0.

Staðan í hálfleik var því 1:0, ÍA í vil.

Það var þá komið að Skagamönnum að nýta sér vindinn og það gerðu þeir. Á 53. fengu gestirnir hornspyrnu sem Johannes Vall tók. Spyrnan var góð og datt fyrir Viktor Jónsson sem þurfti að teygja sig í boltann. Hann náði því en boltinn fór rétt yfir opið markið.

Á 62. mínútu slapp Ómar Björn Stefánsson einn í gegn. Hann var kominn alveg að Marcel í markinu og reyndi skot sem Marcel náði að verja út í teig. Viktor tók þá við boltanum á meðan Marcel var enn liggjandi og reyndi skot, en Marcel náði einhvern veginn að stökkva á fætur og blaka boltanum yfir markið.

Á 76. mínútu vann Marko Vardic boltann rétt fyrir utan teig og vippaði honum inn í teig heimamanna. Sendingin var slök og beint á Marcel sem ætlaði að grípa boltann en missti hann aftur fyrir sig þar sem Viktor stóð rólegur og potaði boltanum í markið, 2:0.

Fleiri urðu mörkin ekki og sannfærandi sigur Skagamanna niðurstaðan.

 



 

ÍBV 0:2 ÍA opna loka
90. mín. Sverrir Páll Hjaltested (ÍBV) á skot yfir Keyrir í átt að teignum og reynir skot sem fer hátt yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert