Jónatan afgreiddi Stjörnuna

Valsmaðurinn Sigurður Egill Lárusson með boltann í kvöld. Guðmundur Kristjánsson …
Valsmaðurinn Sigurður Egill Lárusson með boltann í kvöld. Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar eltir hann. mbl.is/Ólafur Árdal

Valsmenn unnu góðan sigur á Stjörnunni 3:2 í 25. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

Með sigrinum fer Valur í 44 stig í deildinni og eru nú fjórum stigum á eftir Víkingum á toppnum. Stjörnumenn sitja áfram í 3. sæti með 41 stig.

Valur er þar með eina liðið sem getur komið í veg fyrir að Víkingur verði Íslandsmeistari en til þess þurfa Valsmenn að vinna FH á Hlíðarenda og síðan Víking í lokaumferðinni og treysta á að Víkingar vinni hvorki FH annað kvöld né Breiðablik í næstsíðustu umferðinni.

Leikurinn fór ágætlega af stað og áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir marki. Andri Rúnar Bjarnason skoraði fyrsta mark leiksins strax á 6. mínútu úr vítaspyrnu. Örvar Eggertsson slapp innfyrir vörn Vals á hægri kantinum. Örvar renndi boltanum fyrir markið og eftir að Örvar hafði sparkað í knöttinn kom Hólmar Örn Eyjólfsson á fleygiferð og tæklaði Örvar niður. Andri Rúnar steig á vítapunktinn og gerði engin mistök.

Leikurinn var ansi rólegur næstu 35 mínútur á eftir. Stjörnumenn héldu betur í boltann en hvorugt liðið ógnaði marki andstæðinganna að neinu ráði. Það var þó augljóst að meira sjálfstraust var í liði Stjörnumanna í kjölfar marksins en flestar sóknir liðanna runnu út í sandinn.

Tryggvi Hrafn Haraldsson komst í ágæta skotstöðu á 29. mínútu rétt utan teigs eftir sendingu frá Albin Skoglund en skot hans fór nokkuð yfir markið.

Þrjú gul spjöld fóru á loft í síðari hluta fyrri hálfleiks, allt fyrir að stöðva álitlegar skyndisóknir, Valsmenn fengu tvö þeirra og Stjarnan eitt.

Valsmenn jöfnuðu svo leikinn á 42. mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson átti þá fyrirgjöf aftarlega á vallarhelmingi Stjörnunnar, boltinn sveif inn á teiginn þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson skallaði boltann í netið. Árni Snær Ólafsson markvörður Stjörnunnar tímasetti úthlaup sitt illa og greip í tómt.

Staðan var því 1:1 í hálfleik og áhorfendur vonuðust eftir fjörugri seinni hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði með látum.

Benedikt Warén átti fyrsta færið á 49. mínútu. Hann gerði einkar vel og sýndi lipra takta umkringdur varnarmönnum Vals og náði ágætis skoti sem Stefán Þór varði ágætlega.

Valsmenn komust svo yfir 2:1 á 51. mínútu eftir frábært einstaklingsframtak. Tryggvi Hrafn átti þá frábæra skiptingu yfir til hægri á Jónatan Inga sem lék laglega framhjá varnarmönnum Stjörnunnar og hamraði boltanum í netið.

Stjörnumenn áttu næsta högg. Tíu mínútum eftir mark Jónatans tókst þeim að jafna. Guðmundur Baldvin Nökkvason þrumaði þá boltanum í fjærhornið, eftir að boltinn hrökk til hans í teignum.

Jónatan Ingi Jónsson var þó hvergi nærri hættur. Aftur fór hann illa með varnarmenn Stjörnunnar og klíndi knettinum í fjærhornið, 3:2, eftir 73. mínútna leik.

Stjörnumenn freistuðu þess að jafna metin aftur en komust lítt áleiðis. Jóhann Ingi Gunnarsson fékk prýðilegt færi á 86. mínútu eftir atgang í teignum en náði ekki að hitta markið.

Valsmenn vörðust fimlega það sem eftir lifði leiks og tryggðu sér afar mikilvægan sigur í toppbaráttunni. Þeir þurfa nú að treysta á FH-inga til að halda vonum sínum á lífi í titilbaráttunni.

Valur 3:2 Stjarnan opna loka
90. mín. +1. Aukaspyrna frá Samúel Kára en Valsmenn bjarga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert