Jónatan Ingi Jónsson leikmaður Vals gerði gæfumuninn á Hlíðarenda í kvöld. Jónatan skoraði tvö mörk í 3:2-sigri Valsmanna á Stjörnunni í Bestu deild karla í fótbolta.
Með sigrinum halda Valsmenn titilvonum sínum á lífi en þurfa að treysta á að FH-ingar geri þeim greiða á morgun. Víkingar geta orðið Íslandsmeistarar með sigri, en önnur úrslit þýða að vonir Valsmanna séu á lífi, þó að vonin sé kannski veik.
Jónatan Ingi, þetta var kærkominn sigur hjá ykkur í kvöld.
„Já, heldur betur. Við þurftum þessi þrjú stig. Bæði til að setja kannski smá pressu á Víkingana, þó að titillinn sé líklega farinn, en líka til að ná í Evrópusæti og halda öðru sætinu. Við viljum klára tímabilið með sóma, þó svo að við séum svekktir með að vera ekki í meiri baráttu um titilinn, þá viljum við klára þetta almennilega og við fengum þrjú stig í dag.“
Titilbaráttan er ennþá galopin ef að FH vinnur Víking á morgun.
„Já ég verð að treysta á mína gömlu félaga í FH. FH-ingarnir eru búnir að vera mjög góðir í sumar, við erum búnir að spila við þá og það er drulluerfitt að vinna þá og vonandi vinnur FH leikinn á morgun.
Að því sögðu þá þurfum við bara að hugsa um okkur, við höfum ekki tekið þau stig sem hafa verið í boði hingað til, þannig að við þurfum að halda áfram að vinna í okkar leik og sjá hvar við verðum þegar síðasti leikurinn fer fram.“
Þú áttir stórleik í kvöld. Lýstu aðeins mörkunum þínum.
„Til að lýsa fyrra markinu þá var ég búinn að lenda í því nákvæmlega sama gegn Blikum, þar sem Damir (Muminovic, leikmaður Breiðabliks) hendir sér í tæklingu og kemst fyrir skotið hjá mér.
Ég var búinn að hugsa það að næst þegar þessi staða kæmi upp, þá myndi ég vera aðeins rólegri. Þannig ég tók eina skotgabbhreyfingu í viðbót og þá var markið bara galopið og auðvelt fyrir mig að klára færið.“
Í seinna markinu þá var ég búinn að skera inn á völlinn eins og ég geri svo oft. En nú ákvað ég að skjóta loksins, ég er ekki búinn að sjá þetta aftur, en allavega tvö mikilvæg mörk,“ sagði Jónatan Ingi Jónsson.