„Ég á skilið einn bjór, jafnvel tvo“

Gunnar Vatnhamar ásamt stuðningsmönnum eftir leik.
Gunnar Vatnhamar ásamt stuðningsmönnum eftir leik. mbl.is/Ólafur Árdal

Færeyingurinn Gunnar Vatnhamar var að vonum kampakátur eftir sigur Víkings úr Reykjavík á FH, 2:0, í 25. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta í Víkinni í kvöld. Sigurinn þýðir að Víkingur er orðinn Íslandsmeistari þó tveir leikir séu eftir.

„Tilfinningin er frábær. Ég er smá þurr í hálsinum eftir að hafa sungið og trallað eftir að við unnum. Ég er samt með mikla gæsahúð, þetta er frábært. Erfitt að útskýra þessa tilfinningu,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is eftir leik. 

„Ég var ekki síðast þegar við urðum meistarar því kærastan mín var að eignast barn og við vorum heima í Færeyjum. Nú er ég með og við vinnum bikarinn á heimavelli með öllum þessum stuðningsmönnum sem er tvöföld gleði. 

Nú fæ ég virkilega að upplifa þetta og það er magnað.“

Þetta er rútína

Víkingur hefur verið besta liðið á Íslandi á þessu tímabili en Víkingar eru með ansi góðan hóp og mikla breidd.

„Við erum með frábæra sóknarmenn og við vitum að þeir eru líklegir til þess að skora. Þess vegna gerum við allt í vörninni til að halda hreinu því þá eru miklar líkur á að við vinnum. Þetta er svona rútína. 

Við vissum hvað við vildum gera, sóttum stigin þrjú og erum meistarar.“

Gunnar hefur verið algjör lykilmaður hjá Víkingi síðan hann kom fyrir tímabilið 2023. Hann er að njóta þess í botn að vera á Íslandi en þetta er þriðji bikarinn hans.  

„Þetta er mjög skemmtilegt. Þegar þú ert í svona góðu liði með frábæra þjálfara þá er hægt að afreka margt. Við viljum halda áfram að vaxa og gera jafnvel enn meira á næsta tímabili.“

Á að fagna þessu almennilega í kvöld? 

„Ég veit það ekki alveg. Ég er að fara í landsliðsverkefni með Færeyjum eftir þetta. En ég held að ég eigi einn bjór skilið, jafnvel tvo. Þannig já, ég mun klárlega fagna þessu í kvöld,“ bætti Gunnar Vatnhamar við á léttu nótunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert