Ég elska að vera í Víkingi

Nikolaj Hansen vann sinn sjöunda stóra titil með Víkingum í …
Nikolaj Hansen vann sinn sjöunda stóra titil með Víkingum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta var spurning um að toppa á réttum tíma, og við gerðum það,“ sagði Nikolaj Hansen, sóknarmaður Víkinga, við mbl.is eftir að þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld.

Nikolaj vann í kvöld sinn sjöunda stóra titil með Víkingi á jafnmörgum árum en hann er að ljúka sínu níunda tímabili í Fossvoginum og er fyrir nokkru orðinn markahæstur í sögu félagsins.

„Þetta var frábært, algjörlega geðveikt hérna í kvöld. Ég held að við höfum verið besta liðið í ár og svo erum við með bestu stuðningsmennina. Þeir koma á alla leiki og styðja okkur frábærlega. Hérna voru 2.200 manns í kvöld, þetta er stórkostlegt.

Svo er virkilega gaman að hafa náð að vinna titilinn aftur, eftir að hafa tapað honum í síðasta leiknum í fyrra gegn Blikum,“ sagði Nikolaj brosandi út að eyrum eftir leikinn.

Þetta er miklu betra

Tímabilið var í hæsta máta óvenjulegt hjá Víkingum sem léku í Sambandsdeildinni fram í febrúar á þessu ári og fengu litla hvíld. Nikolaj er afar ánægður með hvernig það þróaðist.

„Mér finnst þetta miklu betra. Hérna er undirbúningstímabilið alltaf svo langt, maður þarf að bíða í fimm mánuði eftir að mótið byrji aftur, þannig að þetta var allt annað - og svo var þetta spurning um hvort við gætum toppað á réttum tíma.

Við gerðum það, eftir að við duttum út úr Evrópukeppninni gegn Bröndby erum við búnir að vinna nánast alla leiki, þetta er bara búið að vera geðveikt.

Við erum með besta hópinn á Íslandi, spilum góðan fótbolta og góðan varnarleik,“ sagði Nikolaj sem fyrir nokkru samdi við Víkinga um að leika áfram með þeim næstu tvö árin.

„Já, ég held áfram hérna, ég elska að vera í Víkingi, þetta er mitt lið og vonandi getum við unnið fleiri titla,“ sagði Nikolaj Hansen á sinni góðu íslensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka