Valdimar Þór Ingimundarson varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn þegar Víkingur úr Reykjavík sigraði FH, 2:0, í 25. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
Víkingur er orðinn meistari þótt tvær umferðir séu eftir. Valdimar var í lykilhlutverki hjá Víkingum á tímabilinu og er feginn að þetta sé komið í höfn.
„Þetta er alveg frábært. Við erum búnir að vinna að þessu í allt sumar og frábært að vera búnir að klára þetta núna,“ sagði Valdimar í samtali við mbl.is.
„Mér fannst við reyndar ekki nægilega góðir í kvöld. Ég fékk til að mynda mikið af færum og náði ekki að klára þau. En við unnum og það hefur oft einkennt okkur, að klára leiki sem við erum ekki sérlega góðir í. Það kom seinni hluti tímabilsins hjá okkur.
Þetta lið kann að vinna og síðan ef þú spyrð mig þá erum við besta liðið á Íslandi. Við vinnum öll lið á okkar degi.“
Valdimar skoraði fyrra mark Víkinga í kvöld en hann er kominn með átta mörk í deildinni.
Ég er sáttur við mitt framlag. Ég hef ekki pælt mikið í því en það gekk vel fyrripart tímabilsins án þess að mörkin væru að koma. Mér finnst ég hafa spilað vel.“
Hvernig á að fagna í kvöld?
„Það verður gert eitthvað skemmtilegt, ég lofa þér því,“ bætti Valdimar léttur við.