FH tók á móti Þrótti í 21. umferð Bestu deildar kvenna í dag og lauk leiknum með sigri FH 4:0. Eftir leikinn er FH í 2. sætinu með 45 stig og skilur sig frá Þrótturum sem eru í 3. sætinu með 42 stig í efri hluta deildarinnar.
FH er því í kjörstöðu að tryggja sér Evrópusæti þar sem aðeins tveir leikir eru eftir af tímabilinu.
Þróttur byrjaði leikinn mun betur fyrstu 5 mínútur leiksins og sótti stíft á mark FH. Ekkert mark kom þó fyrr en á 13. mínútu en þá voru FH-konur búnar að taka öll völd á vellinum og skoraði Margrét Brynjar Kristinsdóttir eftir darraðardans í vítateig Þróttar. Staðan orðin 1:0 fyrir FH.
FH-konur gátu bætt við 2-3 mörkum í fyrri hálfleik en Mollee Swift markvörður Þróttar átti góðan fyrri hálfleik og kom í veg fyrir frekari mörk frá FH.
Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir FH.
FH skoraði annað mark sitt strax á 46. mínútu eða þegar 34 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik. Macy Enneking gaf boltann út á Jónínu Linnet. Jónína gaf langan bolta fram á Thelmu Karen Pálmadóttur sem skildi alla varnarmenn Þróttar eftir í ryki og skoraði af öryggi. Staðan orðin 2:0 fyrir FH.
Eftir þetta yfirspiluðu FH-konur lið Þróttar og áttu FH-konur hvert skotið á fætur öðru. Má Þróttur þakka markverði sínum, Mollee Swift, fyrir að bjarga því sem bjargað varð því hún varði oft og tíðum meistaralega.
Á 70. mínútu brást stíflan á ný þegar Andrea Rán Hauksdóttir gaf boltann fyrir markið og Ingibjörg Magnúsdóttir skaut viðstöðulausu skoti innanfótar í hornið fjær. Frábært mark og staðan orðin 3:0.
Thelma Lóa Hermannsdóttir skoraði fjórða mark FH á 73. mínútu eftir sendingu frá Mayu Hansen og innsiglaði Thelma Lóa sigur FH endanlega. Staðan orðin 4:0 fyrir FH.
Þróttur ógnaði aldrei marki FH að neinu leyti þrátt fyrir að FH gerði mikið af skiptingum. Fóru leikar því þannig að FH vann stórsigur og er nær því að tryggja sér 2. sætið í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir af efri hlutanum.