„Þetta er frábær tilfinning," sagði Ingvar Jónsson markvörður Víkings við mbl.is eftir að lið hans tryggði sér Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta í kvöld með 2:0 sigri á FH á Víkingsvellinum.
Ingvar hefur þar með unnið sex stóra titla með Víkingi á fimm árum, þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla, en hann varð áður Íslandsmeistari með Stjörnunni.
„Maður þorði ekki að hugsa of mikið um titilinn fyrir leikinn því það getur allt gerst í fótbolta og við áttum erfiða leiki eftir. Það er mjög ljúft að hafa klárað þetta núna,“ sagði Ingvar um leikinn í kvöld.
„Það er alltaf eitthvert aukastress í gangi þegar svona mikið er undir. Við fórum einhvern veginn að verja forskotið ósjálfrátt og þetta varð svolítið skrýtinn leikur. En mér fannst við ná aftur góðri stjórn á leiknum í seinni hálfleik og ég hafði ekki miklar áhyggjur því FH-ingar sköpuðu ekki mikla hættu.
Þeir voru góðir undir lok fyrri hálfleiks, FH er frábært lið sem var ekki búið að tapa í einum átta leikjum og við vissum að þeir myndu ekki gefa okkur neitt. Þeir eru vel skipulagðir, gerðu vel í að koma í veg fyrir okkar góðu spilpunkta," sagði Ingvar.
Víkingar hafa fengið sextán stig í síðustu sex leikjum og eru með sjö stiga forskot á Valsmenn þegar tveimur umferðum er ólokið.
„Við fundum loksins sigurlið á lokasprettinum og þetta er sigur liðsheildarinnar. Ég veit ekki hvað notuðum eiginlega marga leikmenn þannig að ég er mjög stoltur af þessu," sagði Ingvar.
Var einhver tímapunktur sem gerði útslagið fyrir ykkur á þessum lokakafla tímabilsins?
„Tapleikurinn gegn Bröndby var líklega talsverður viðsnúningur fyrir okkur, þegar maður lítur á jákvæðu hliðarnar við það að detta út úr Evrópukeppni á svona svakalega dimman hátt. Ég veit ekki hvernig þetta hefði farið ef við hefðum komist áfram, mætt Strasbourg, og svo misst kannski tvo menn í viðbót í meiðsli.
Við þurftum að líta jákvætt á þetta áfall og Sölvi setti upp úrslitaleiki fyrir okkur. Við vorum komnir sjö stigum á eftir Val fyrir mánuði síðan, en við notuðum bara gömlu góðu klisjuna – einn leikur í einu – og með þetta markmið.“
„Við vissum að meistaratitillinn myndi gefa okkur auðveldari leið í Evrópukeppninni á næsta ári og menn vilja aftur fá svona langt tímabil þótt þetta sé erfitt. Þetta eru langskemmtilegustu leikirnir.
Það sýnir bara hve gott afrek þetta var hjá okkur í fyrra, vinna Cercle Brugge á fimmtudegi og mæta í úrslitaleik um titilinn á sunnudegi með tveggja stiga forskot. Núna erum við ég veit ekki hve mörgum stigum á undan Blikum.
Það reynir þvílíkt á að spila tvo leiki í viku, fyrir leikmenn sem eru ekki vanir því. Það er meira en að segja það að vera með ferskar lappir á þriggja daga fresti. Við lærum vonandi af þessu, verðum vonandi með enn sterkari hóp á næsta ári og ætlum að komast aftur í þetta Sambandsdeildardæmi," sagði Íslandsmeistarinn Ingvar Jónsson.