Lokaleikur 25. umferðar neðri helmings Bestu-deildar karla var spilaður á KA-vellinum í dag þar sem KA fékk Vestra í heimsókn. Liðin skildu jöfn, 1:1 og tryggði KA sæti sitt í deildinni. Lið KA er með 33 stig í 8. sætinu en Vestri er í 10. sæti með 28 stig, þremur stigum meira en KR og tveimur meira en Afturelding.
Nú eru aðeins fjögur lið eftir sem geta fallið en KA stimplaði sig út í dag og ÍBV í raun líka, þar sem Vestri vann ekki leikinn.
Fyrri hálfleikurinn var með rólegra móti. Vestramenn byrjuðu af krafti en smám saman tók KA völdin. Heimamenn voru meira og minna með boltann seinni hluta fyrri hálfleiks en ekki tókst þeim að skapa sér mikið af færum. Það vantaði herslumuninn hjá KA-mönnum og ákvarðanir leikmanna voru stundum stórskrýtnar.
Það kom eins og köld vatnsgusa framan í KA-menn þegar Vestri skoraði eina mark fyrri hélfleiks. Jeppe Pedersen gaf fyrir markið af vinstri kantinum. Boltinn stefndi í sakleysu sínu á markið og markvörðurinn Jonathan Rasheed hefði í 99 tilvikum af 100 gripið boltann. Hann gerði það ekki í þetta skiptið og boltinn skoppaði í markið. Leikurinn var svo tíðindalítill fram að hálfleik og staðan 1:0 fyrir Vestra.
Seinni hálfleikurinn var ekki beint gæfulegur frá sjónarhóli knattspyrnunnar. Liðin áttu varla færi og barátta var allsráðandi.
Hvorugt liðið var líklegt til að skora en KA jafnaði leikinn á 79. mínútu. Hans Viktor Guðmundsson stangaði boltann í mark eftir aukaspyrnu Hallgríms Mar af vinstri kantinum.
Leikurinn varð fjörugri á lokasprettinum og bæði lið vildu ná í öll stigin. KA þjarmaði vel að Vestra í uppbótartímanum en allt kom fyrir ekki.