Rúnar Kristinsson þjálfari Fram var langt frá því að vera ánægður með frammistöðu sinna leikmanna í fyrri hálfleik þegar þeir mættu Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld. Fram tapaði leiknum 3:1 og situr áfram í 6. sæti deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið.
Spurður út í slæman fyrri hálfleik í kvöld sagði Rúnar þetta:
„Við mættum ekki til leiks eins og menn segja stundum. Við vorum alveg skelfilega lélegir í fyrri hálfleik, ofboðslega ólíkir sjálfum okkur, andlausir og viljalausir. Ég hef bara ekki séð liðið mitt svona dapurt frá því ég tók við.
Ég er mest fúll yfir því að við höfum ekki farið inn í hálfleikinn með stöðuna 2:1 því þá hefði verið mun auðveldara að snúa þessu við. Við förum alltof hratt í sókn þegar það er einhver ein og hálf mínúta eftir af fyrri hálfleik. Í stað þess að fara í hálfleikinn með 2:1 undir þá vöðum við af stað og Kyle dettur og þeir fá aukaspyrnu.
Eins og öll mörkin sem þeir skora. Fyrsta markið er sjálfsmark, annað markið breytir boltinn um stefnu eftir að hafa farið í okkar mann og þriðja markið er alveg eins. Við skoruðum öll mörkin í leiknum.
Ég tek það ekkert af Blikum að þeir voru góðir og ógnuðu okkur mjög oft og áttu fullt af fínum sénsum til að búa til færi og skora mörk en gerðu það ekki. Við gerðum það fyrir þá og í seinni hálfleik vorum við mun betri og sköpuðum færi. Auðvitað vorum við að taka sénsa og það voru opnanir en við áttum ekkert skilið út úr þessum leik.
Heilt yfir áttu Blikar skilið að vinna þennan leik þrátt fyrir að Anton hafi nokkrum sinnum bjargað þeim í kvöld.“
Ef við förum að leika okkur með ef og hefði þá fenguð þið nokkur góð færi til að minnka muninn og jafna ef því er að skipta. Hefði það gerst þá væri staðan kannski allt önnur. Kanntu einhverja útskýringu á því af hverju þínir menn mættu ekki jafn tilbúnir í fyrri hálfleikinn og þeir gerðu í þeim seinni í ljósi þess að liðið er komandi út úr sigurleik á móti Val og ætti að vera fullir sjálfstrausts?
„Þetta er skrýtið. Við áttum frábæran leik á móti Val og fínan leik þar á undan gegn Víkingum. Við ætluðum að halda þessu áfram og sýna þessum bestu liðum að við getum strítt þeim og jafnvel unnið þau. Það er fúlt að koma hérna og fá ekkert. Við settum stefnuna á að berjast og reyna ná 4. sætinu þó að það gefi ekki neitt. En það er samt ákveðið stolt í því og eitthvað sem þú getur tekið með þér inn í næsta ár.
Við verðum að vera klárir í næsta leik og sýna þessari deild og þessu móti þá virðingu að klára þetta með sæmd.“
Næsti leikur er á móti Stjörnunni sem er í baráttu um Evrópusæti. Þið væntanlega ætlið ekki að gefa þeim stigin þrjú, er það nokkuð?
„Nei, eins og ég segi þá verðum við að leggja okkar vinnu í alla leiki. Við getum ekki bara hjálpað Víkingum með því að vinna Val og leggjast síðan niður og gera ekki neitt.
Í fyrra unnum við fyrsta leikinn okkar sem bitnaði á Fylki og síðan töpuðum við rest af því að við hættum og nenntum þessu ekki. Ég nenni því ekki aftur. Við nennum ekki að taka þátt í þessu og ekki að leggja vinnuna sem þarf til að vinna leikina. Það er bara ekki boðlegt.
Þó svo að það séu ekkert allir hlynntir þessu fyrirkomulagi þá eru hér að fara fram eftir landsleikjahlé fullt af leikjum sem skipta engu máli.
Fyrir sum lið skipta leikirnir engu máli og fyrir önnur lið skipta þeir hellingsmáli. Það getur bara skipt miklu máli upp á hvaða lið fellur og hvaða lið kemst í Evrópukeppni. Ég sagði það í fyrra og segi það aftur núna að við munum mæta í alla leiki og bera virðingu fyrir öllum þessum liðum sem eru í þessari baráttu og reyna að gera okkar besta til að vinna.“
Ein lokaspurning. Af því þú talar um þetta fyrirkomulag varðandi efri og neðri hlutann, hvernig myndir þú vilja hafa deildina?
„10 lið, 3 umferðir og 27 leikir. Það er alveg það sama. Þeir sem fá flest stig, þeir eru meistarar,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is.