Sölvi: Þú getur rétt svo ímyndað þér það

Sölvi Geir Ottesen heldur utan um kærustu sína Selmu Dögg …
Sölvi Geir Ottesen heldur utan um kærustu sína Selmu Dögg Björgvinsdóttur í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Sölvi Geir Ottesen var að vonum kampakátur þegar lið hans Víkingur úr Reykjavík varð Íslandsmeistari í 8. sinn með sigri á FH, 2:0, í 25. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta í kvöld.

„Tilfinningin er bara akkúrat eins og hún á að vera. Þetta er mikil gleði og þakklæti. Ég er þakklátur öllum Víkingum, hvort sem það séu leikmenn, stuðningsmenn, starfsmenn, sjálfboðaliðar, stjórn eða þjálfarateymið mitt. Ég er bara virkilega ánægður og þakklátur,“ sagði Sölvi í samtali við mbl.is. 

Miklar tilfinningar

„Mér fannst þetta frábær frammistaða. Auðvitað eru miklar tilfinningar í svona leikjum þegar það er mikið í húfi. Mér fannst við setja tóninn strax frá byrjun og litum ekki til baka. Ég er virkilega ánægður með liðið. Menn lögðu sig fram og voru með mikla einbeitingu í leiknum. Þetta eru algjörir sigurvegarar.“

Þetta var fyrsta tímabil Sölva sem aðalþjálfari Víkings en hann var aðstoðarþjálfari Arnars Gunnlaugssonar fyrir það.

„Ég er mjög stoltur af þessu. Það er mikil vinna bak við þetta og ég verð að hrósa þjálfarateyminu. Þjálfararnir sem eru með mér leggja mikið í þetta og eiga jafnmikið í þessu og ég. Ég væri ekkert án þeirra. Ég er stoltur af þeim og árangrinum.“

Á að fagna þessu í kvöld? 

„Já, þú getur rétt svo ímyndað þér það. Vonandi verður fagnað fram eftir nóttu,“ bætti Sölvi við á léttu nótunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka