„Ég er stoltur af því að ná þessum titli á mínum aldri með svona ótrúlega góðu liði, segir Matthías Vilhjálmsson sem í kvöld vann sinn fimmtánda stóra titil á ferlinum þegar Víkingur varð Íslandsmeistari í fótbolta með sigri á hans gamla félagi, FH, 2:0.
Matthías hefur nú unnið fimm Íslandsmeistaratitla, orðið þrisvar bikarmeistari og svo varð hann fjórum norskur meistari og þrisvar bikarmeistari þar í landi með Rosenborg.
„Þetta er geggjað. Ég er afar stoltur af mínum ferli en þessi tímapunktur, að gera þetta á mínum aldri með svona ótrúlega góðu liði og að mínu mati einu af bestu liðum Íslandssögunnar, eru bara forréttindi.
Þetta er sennilega einhver skemmtilegasti tíminn á ferlinum, ég er ógeðslega þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu. Maður verður eiginlega meyr yfir þessu því tíminn flýgur og þetta varir því miður ekki að eilífu.
Það er geggjað að taka þátt í þessum uppgangi hérna í Víkinni," sagði hinn 38 ára gamli Ísfirðingur við mbl.is eftir sigurinn á FH.
„Við settum okkur markmið eftir ótrúlega súrt tap gegn Bröndby þar sem við féllum út úr Evrópukeppninni, að titillinn væri það eina sem kæmi til greina. Þá vorum við búnir að hiksta hér og þar í þessu móti en það má ekki gleymast við við lukum síðasta tímabili í febrúar á móti Panathinaikos, sem var var svakalegt afrek út af fyrir sig.
Við vorum með nýjan stjóra í brúnni, sem stóð sig frábærlega. Fyrir Sölva að taka við af Arnari Gunnlaugssyni og vinna titilinn á fyrsta ári er bara geggjað. Ég samgleðst öllum hérna í Víkingi, hér hef ég eignast vini til lífstíðar," sagði Matthías Vilhjálmsson.