Þurftum að þjást

Höskuldur Gunnlaugsson.
Höskuldur Gunnlaugsson. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Breiðablik á enn von um að næla sér í Evrópusæti eftir 3:1-sigur á Fram í 25. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, skoraði annað mark liðsins í kvöld. Hann var að vonum ánægður með úrslitin þegar mbl.is ræddi við hann og spurði hann að því hvað hafi skapað sigur liðsins í kvöld.

„Þýðingarmikill og mikilvægur sigur fyrir þessa Evrópubaráttu sem nú er bara galopin. Nú eru tveir úrslitaleikir eftir en gríðarlega mikilvægt að sækja þessi úrslit núna fyrir landsleikjafrí.“

Áttir þú von á því að þitt lið myndi spila jafnmikla einstefnu í fyrri hálfleik og raun bar vitni?

„Mér fannst við koma með góða ákefð út í fyrri hálfleikinn. Þeir verða kannski bara vankaðir við að fá okkur svona strax í andlitið og ná boltanum á þeirra síðasta þriðjungi. Mér fannst við gera vel í fyrri hálfleik með því að skora þessi þrjú mörk.“

Fengum færi til að drepa leikinn

Síðan í seinni hálfleik þá gefa Blikar talsvert eftir og Fram gerir sig líklega til að hóta mörkum en ná því samt ekki.

„Já, ég held þetta sé rétt greining hjá þér. Við fáum alveg færi til að drepa leikinn með því að setja fjórða markið. Ég hefði viljað sjá meira drápseðli þar hjá okkur. En síðan eru þeir með frábæra leikmenn og þegar þeir fara í sínar skyndisóknir. En við þurftum bara að þjást aðeins og varnarmennirnir okkar gerðu vel í að halda hreinu í seinni hálfleik.“

Kristinn Steindórsson fer út af í hálfleik. Meiddist hann?

„Hann fékk aðeins aftan í lærið og mat það þannig að fara út af áður en þetta yrði eitthvað ljótt. Blessunarlega er smá frí núna og hann fær tíma til að jafna sig. Vonandi verða þetta bara nokkrir dagar.“

Næsti leikur er á móti nýkrýndum Íslandsmeisturum Víkinga. Blikar hljóta að þurfa að fara inn í þann leik til að vinna og halda Evrópubaráttunni lifandi á sama tíma og þið væntanlega viljið sýna Víkingum hvernig Íslandsmeistarar spila fótbolta.

„Við munum að sjálfsögðu standa heiðursvörð fyrir þá og óska þeim til hamingju. Þeir eru búnir að vera bestir á þessu móti. Síðan er ekkert að gera meira úr því en að sækja þessi þrjú stig sem í boði eru.“

Hvernig vinnið þið Víkinga?

„Blanda af því að vera hugrakkir, fastir fyrir og með mikla ákefð. Síðan þarf að vera gott flæði í uppbyggingu á sóknum hjá okkur og skora mörk auðvitað,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert