Samúel Kári Friðjónsson leikmaður Stjörnunnar í Bestu deild karla í fótbolta lék vel á miðjunni í kvöld, en hann var skiljanlega ósáttur með 3:2-tap sinna manna á Hlíðarenda í kvöld.
Samúel Kári. Þetta var mjög svekkjandi tap í kvöld.
„Já. Bara alveg glatað.“
Þið byrjið leikinn vel og komist yfir snemma í leiknum. Fyrri hálfleikurinn var svo kannski frekar rólegur en Valsmenn náðu síðan að jafna undir lok fyrri hálfleiks. Hvað rædduð þið hálfleik?
„Við töluðum um að koma inn af sömu ákefð og í fyrri hálfleik og keyra yfir þá. Við hefðum átt að gera það. Við vorum með þá í köðlunum í fyrri hálfleik og hefðum bara átt að klára leikinn þá.“
Hvað fannst þér vanta upp á hjá ykkur í dag?
„Það eru bara smáatriðin sem ráða úrslitum í leiknum. Við sváfum bara á verðinum í mörkunum sem að þeir skora. Það er lítið hægt að segja um það. Jónatan gerði vel að vísu, en eins og ég segi þá hefðum við bara átt að klára leikinn.“
Hvað með framhaldið hjá ykkur, er ekki stefnan að tryggja ykkur Evrópusætið núna í þeirri stöðu sem þið eruð núna?
„Jú klárlega. Það er ekkert flóknara en það. Það eru tveir leikir eftir og við hengjum ekkert haus núna.“
Þið náið Evrópusætinu í raun hvort sem þið endið í öðru eða þriðja sæti.
„Að sjálfsögðu, en við viljum auðvitað enda sem hæst í töflunni. Við töluðum um það núna eftir leik að við mættum alls ekki hengja haus. Núna þurfum við bara að halda áfram og klára leikina sem eftir eru. Það er bara nýr dagur á morgun og áfram gakk,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson að lokum í samtali við mbl.is.