Víkingur er Íslandsmeistari karla í fótbolta í áttunda skipti og í þriðja sinn á fimm árum eftir sigur á FH, 2:0, í 25. umferð Bestu deildar karla á Víkingsvellinum í kvöld.
Víkingar náðu með því á ný sjö stiga forskoti á Valsmenn, eru með 51 stig gegn 44 stigum Hlíðarendaliðsins þegar tveimur umferðum er ólokið.
Þegar Helgi Mikael Jónasson dómari flautaði til leiksloka gátu því þeir stigið sannkallaðan stríðsdans ásamt stuðningsmönnum sínum, sem fjölmenntu í Fossvoginn í kvöld,
Þeir urðu meistarar 2021 og 2023 undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar og hafa nú endurheimt titilinn á fyrsta ári Sölva Geirs Ottesens sem aðalþjálfara liðsins.
Eftir sigur Valsmanna á Stjörnunni í gærkvöld lá fyrir að Víkingar þyrftu einn sigur enn í síðustu þremur leikjunum til að standa uppi sem Íslandsmeistarar 2025.
Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru búnir að ógna nokkrum sinnum verulega áður en Valdimar Þór Ingimundarson kom þeim yfir á 9. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson vann þá boltann af FH-ingum þegar þeir reyndu að spila út frá marki hann hrökk á Valdimar sem skaut upp undir þverslána, 1:0.
Víkingar gerðu sig líklega til að bæta við mörkum en sluppu síðan með skrekkinn í fyrstu marktilraun FH á 20. mínútu þegar Kjartan Kári Halldórsson átti fast skot í þverslá úr aukaspyrnu.
FH-ingar komust síðan vel inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn. Þeir hefðu getað fengið vítaspyrnu á 30. mínútu þegar Sigurður Bjartur Hallsson féll í návígi við Gunnar Vatnhamar og þeir ógnuðu talsvert á lokakafla fyrri hálfleiks en staðan var 1:0 í hálfleik.
Leikurinn var síðan í járnum langt fram eftir síðari hálfleik og FH-ingar síst lakari aðilinn þó minna væri undir hjá þeim. Marktækifærin voru fá en baráttan þeim mun meiri og ljóst að spennan fór að segja til sín hjá Víkingum þegar á leið.
En spennunni var létt af þeim og stuðningsmönnunum á 84. mínútu þegar Karl Friðleifur Gunnarsson sendi fyrir markið frá hægri og Helgi Guðjónsson skallaði snyrtilega í vinstra hornið 2:0.
Þar með upphófust fagnaðarlætin í stúkunni á Víkingsvellinum fyrir alvöru og sungið og trallað þar til Helgi Mikael Jónasson varadómari flautaði til leiksloka. Þá hófst meistarafögnuðurinn svo um munaði og flugeldar fóru á loft!