Matthías Vilhjálmsson, aldursforsetinn í Íslandsmeistaraliði Víkings í fótbolta, ætlar að íhuga vel framtíðina á næstu dögum.
Matthías er 38 ára gamall og hefur leikið í meistaraflokki frá árinu 2002 þegar hann hóf ferilinn með BÍ á Ísafirði en hann vann í gærkvöld sinn fimmtánda stóra titil á ferlinum, á Íslandi og í Noregi.
Aðspurður eftir sigurinn á FH í gærkvöld sagðist Matthías ekki hafa tekið ákvörðun um framhaldið en hún yrði vandlega íhuguð.
„Málið er að ég er á krossgötum, ég hef verið með allan fókusinn á að vinna þennan titil með Víkingi og er ekki búinn að ákveða neitt. Ég ætla að taka mér góðan tíma í það, hvort mig langi til að spila áfram, hvort ég ætli að hætta, hvort mig langi að spila og fara að þjálfa, eða snúa mér að einhverju allt öðru,“ sagði Matthías við mbl.is.
„Núna kemur landsleikjahléið í deildinni og maður getur hugsað málin, en það eru alla vega bjartir tímar fram undan hérna í Víkinni. Með því að vinna þennan titil höfum við tryggt okkur meistaraleiðina í Evrópukeppninni á næsta ári þannig að það er margt sem kemur til greina,“ sagði Matthías Vilhjálmsson.