Missti stjórn og leyfði tilfinningunum að ráða

Helgi Guðjónsson fagnar með stuðningsmönnum.
Helgi Guðjónsson fagnar með stuðningsmönnum. mbl.is/Ólafur Árdal

Helgi Guðjónsson skoraði seinna mark Víkings úr Reykjavík þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta með sigri á FH, 2:0, í 25. umferð Bestu deildarinnar í Víkinni í gærkvöldi.

„Þetta er ótrúlega sætt. Ég er virkilega ánægður með að við séum búnir að klára þetta.

Við erum með rosalega sigurvegara í hópnum. Það kunna allir sín hlutverk og sama þótt við fáum nýja menn þá læra þeir fljótt á þetta. Þessi ár hafa verið þokkalega góð,“ sagði Helgi við mbl.is eftir leik.

Hentað mér vel

Helgi leyfði tilfinningunum að ráða þegar hann fagnaði markinu en hann reif sig úr treyjunni og fagnaði ákaflega með stuðningsmönnunum.

„Þetta var algjör bilun. Ég missti mig bara og leyfði tilfinningunum að ráða aðeins. Djöfull var þetta skemmtilegt.“

Helgi er búinn að vera í nýju hlutverki hjá Víkingum á tímabilinu en Sölvi Geir Ottesen þjálfari hefur verið að nota hann í vinstri bakvörð. Helgi er að upplagi framherji og því um mikla breytingu að ræða.

„Þetta hefur reynst mér frekar vel. Ég fæ að skila mér inn á teiginn þar sem ég er bestur en síðan er líka að sinna varnarvinnunni og vera duglegur að skila sér til baka. Maður kann þetta.

Ég er virkilega þakklátur fyrir traustið sem Sölvi hefur gefið mér í sumar. Það var mitt að grípa í það aðeins og mér finnst ég hafa gert það þokkalega.“

Á að fagna þessu almennilega í kvöld?

„Ég veit það ekki, það á að keyra þetta aðeins í gang. Síðan eru tveir leikir eftir og það verður tekið alvöru djamm eftir þá,“ bætti Helgi Guðjónsson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert