Nikolaj Hansen átti stóran þátt í að Víkingur varð Íslandsmeistari í fótbolta í þriðja sinn á síðustu fimm árum en Víkingur tryggði titilinn með sigri á FH, 2:0, á heimavelli síðastliðinn sunnudag.
Bold í Danmörku ræddi við Hansen eftir leikinn og forvitnaðist út í framtíð framherjans. Blaðamaður danska miðilsins hélt að Hansen væri samningslaus eftir tímabilið en svo er ekki.
„Ég er reyndar ekki að verða samningslaus. Ég framlengdi samninginn um tvö ár rétt fyrir leikinn á móti Bröndby í ágúst,“ svaraði Hansen og kom blaðamanni miðilsins á óvart.
Viðtalið hélt svo áfram og Hansen lýsti yfir því að hann væri ánægður með lífið og tilveruna á Íslandi og að hann sé lítið að flýta sér aftur heim til Danmerkur.
