Þorlákur áfram með ÍBV

Þorlákur Már Árnason þjálfari ÍBV.
Þorlákur Már Árnason þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Þorlákur Már Árnason verður áfram þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu. Þorlákur skrifaði undir þriggja ára samning þegar hann var ráðinn fyrir tæpu ári síðan.

Ekkert fararsnið er á Þorláki þar sem knattspyrnudeild ÍBV tilkynnti sérstaklega um að hann verði áfram.

Undir stjórn Þorláks hefur ÍBV átt mjög góðu gengi að fagna sem nýliði í Bestu deildinni en liðið er í sjöunda sæti með 33 stig og getur ekki fallið niður í 1. deildina.

„Þetta eru miklar gleðifréttir enda hefur Láki gert frábæra hluti með liðið á leiktíðinni. Flestir spáðu ÍBV neðsta sæti deildarinnar en liðið hefur siglt lygnan sjó í deildinni í nokkuð langan tíma, þrátt fyrir að meiðsli hafi sett strik í reikninginn hjá liðinu.

Liðið var síðast í fallsæti eftir 1. umferðina og situr nú í 7. sæti deildarinnar með 33 stig eftir 25 leiki. Knattspyrnuráð hefur verið mjög ánægt með störf Láka á tímabilinu og hlakkar til áframhaldandi samstarfs,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka