Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé tók ekki þátt í æfingu franska landsliðsins í gær.
Það er franski miðillinn L'Equipe sem greindi frá þessu en Mbappé meiddist á ökkla í leik með Real Madrid gegn Villarreal um nýliðna helgi í 8. umferð spænsku 1. deildarinnar.
Spænski blaðamaðurinn Edu Aguirre greinir frá því í dag að forráðamenn Real Madrid, félagsliðs Mbappés, hafi farið fram á það við franska knattspyrnusambandið að framherjinn verði hvíldur í komandi landsleikjum gegn Aserbaísjan og Íslandi í D-riðli undankeppni HM.
Í frétt Aguirre kemur meðal annars fram að franska knattspyrnusambandið hafi ekki átt í miklum samskiptum við forráðamenn Real Madrid vegna Mbappés og að það fari mikið í taugarnar á forráðamönnum spænska félagsins.
Frakkar taka á móti Aserbaísjan í París þann 10. október og mæta svo Íslandi á Laugardalsvelli þann 13. október en Frakkar eru með sex stig eða fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins á meðan Ísland er í öðru sætinu með þrjú stig.