Breiðablik vann 4:0 sigur á serbneska liðinu Spartak Subotica í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópubikars kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
Nik Chamberlain þjálfari Breiðabliks var nokkuð sáttur með úrslit leiksins en hefði viljað sjá betri frammistöðu hjá sínu liði.
Þetta endaði með nokkuð þægilegum sigri ykkar í kvöld.
„Já. Þriðja og fjórða markið voru mjög mikilvæg. Eins og leikurinn byrjaði þá vorum við með algjöra stjórn á leiknum og komum okkur í góðar stöður til að skora fleiri mörk. En við náðum alls ekki okkar bestu frammistöðu í dag, en ég er gríðarlega ánægður með unglingana Edith og Sunnu sem komu inn með mikinn kraft og gæði til að klára leikinn.“
Eins og þú nefnir þá byrjaði liðið leikinn sterkt og skoraði tvö góð mörk, svo er eins og það fjari aðeins undan spilamennsku ykkar.
„Ég fer ekkert í grafgötur með það að næstu sextíu mínútur hjá okkur eftir fyrstu tíu mínúturnar voru hræðilegar. Ég vil alls ekki sykurhúða það og frammistaða okkar var alls ekki á því getustigi sem við erum vanar að sjá. Það er stundum þannig í fótbolta, en við höfum engar áhyggjur af því og við munum spila betur í seinni leiknum í Serbíu.“
Það var ansi hressilegur vindur á Kópavogsvelli í kvöld. Þjálfarinn vildi þó ekki meina að aðstæður hefðu haft veruleg áhrif.
„Mér fannst það ekki, kannski hafði það meiri áhrif á Spartak-liðið. Þær fóru svolítið í að spila löngum sendingum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vildum hafa boltann á jörðinni og spila okkur í gegnum þær og finna hálfsvæðin, þannig mér fannst það ekki breyta miklu fyrir okkur. Það sem vantaði í okkar leik, sérstaklega á þessum sextíu mínútna kafla, voru gæði til að gera betur í þeim stöðum sem við fengum.“
Spartak-liðið hóf leikinn mjög aftarlega á vellinum og varðist fyrir aftan boltann með ellefu leikmönnum, þar sem fremsti leikmaður var við miðjubogann á eigin vallarhelmingi. Eftir fyrstu tvö. Kom það þér á óvart að þær lægju svona aftarlega frá byrjun eða voruð þið við öllu búnar?
„Við vorum undirbúnar fyrir allar sviðsmyndirnar. Ég var mjög hissa að þær hafi ekki pressað okkur strax, þar sem þær voru að spila með vindi í fyrri hálfleik. Ég hef ekki hugmynd af hverju þær nálguðust leikinn svona, því um leið og þær stigu upp á okkur gekk þeim betur að ráða við okkur.
Ég átti svo sem von á þær lægju frekar aftarlega og að þær væru þéttar. Ég á svo sem von á svipaðri leikmynd í leiknum í Serbíu en augljóslega þurfa þær að koma aðeins framar á völlinn.“
Nokkur orð um varamennina þína sem gerðu út um leikinn að lokum?
„Þær komu og gáfu okkur þann kraft sem okkur vantaði. Það var kannski smá þreyta í okkur líkamlega og andlega eftir að við fögnuðum titlinum og þetta var fyrsti leikur eftir það. En við þurfum að kveikja á okkur, sérstaklega í þessari keppni, því við ætlum okkur að minnsta kosti að komast í 16-liða úrslitin.“
Ég er virkilega ánægður fyrir hönd Sunnu að skora sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk og þetta var frábær stoðsending hjá Edith. Þær eiga mjög bjarta framtíð fyrir sér hér.“
Hvernig leik áttu von á í Serbíu næsta miðvikudag?
„Ég á von á því að við spilum betur. Ég á einnig von á að Spartak-liðið verði öflugra og valdi okkur meiri vandræðum en í kvöld. Þær eru með góða leikmenn innanborðs og geta haldið boltanum ágætlega. Mögulega munu þær pressa okkur hærra en miðað við gæðin í okkar liði þá eigum við að klára verkefnið og ég býst við betri frammistöðu frá okkur,“ sagði Nik Chamberlain að lokum í samtali við mbl.is