Breiðablik mætir Spartak Subotica á Kópavogsvelli í dag kl. 18 í 2. umferð Evrópubikars kvenna í fótbolta. Þetta er fyrri leikurinn í einvíginu en liðin mætast aftur í Serbíu viku síðar. Sigurliðið fer áfram í 16-liða úrslit keppninnar.
Morgunblaðið ræddi við Öglu Maríu Albertsdóttur, landsliðskonu og fyrirliða Breiðabliks, í aðdraganda leiksins á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í gær. Agla María, sem er lykilmaður í Breiðabliksliðinu, hefur skorað tíu mörk í 21 leik í Bestu deildinni í ár.
Agla María tók þátt í öllum leikjum Íslands á EM í júlí og er með ansi góða reynslu af Evrópuleikjum. Leikurinn í dag verður 25. leikur hennar í Evrópukeppni fyrir Breiðablik, en sá fyrsti kom árið 2017.
Hvernig líst þér á leikinn á morgun?
„Ég er mjög spennt. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta lið verður og það er alltaf gaman að spila á móti nýju liði,“ sagði Agla María.
Lið Spartak Subotica sigraði albanska félagið Partizani samanlagt 8:0 í 1. umferð Evrópubikarsins. Blikar töpuðu fyrir Twente í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu og koma nú inn í Evrópubikarinn, en Blikar sátu hjá í 1. umferð.
Hvað vitið þið um andstæðinginn?
„Svona þokkalega mikið. Við tókum fund í gær þar sem við fórum vel yfir þeirra helstu lykilleikmenn og hvernig þær spila, svo förum við aðeins betur yfir þetta á fundi á eftir, þá kemur þetta betur í ljós.“
Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn síðasta föstudag með 3:2-sigri á Víkingi úr Reykjavík í 21. umferð Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli.
Það hlýtur að vera frábært að þið hafið náð að tryggja ykkur Íslandsmeistaratitilinn áður en það kemur að þessum Evrópuleik.
„Það var algjört lykilatriði að klára bikarinn. Við erum að fara í hörkuprógramm núna næstu tvær vikur. Við erum að spila á morgun [í dag], svo aftur á laugardaginn. Síðan er ferðalag til Serbíu og svo spilum við strax aftur þegar við komum heim. Maður veit aldrei hvað gerist þegar það er mikið álag á hópnum, þannig að ég er virkilega fegin að við höfum klárað þetta.“
Ný Evrópukeppni, Evrópubikarinn, fer fram í fyrsta skipti tímabilið 2025-2026 en sú keppni tekur við liðum sem detta snemma úr Meistaradeildinni.
Þessi Evrópukeppni er ný af nálinni. Hvernig líst þér á að taka þátt í henni?
„Mjög vel. Það er fullt af hörkuliðum í þessari keppni og lið sem detta út úr Meistaradeildinni þannig að þetta er mjög jákvæð þróun fyrir kvennaboltann. Það hefur klárlega vantað aðra keppni. Við höfum séð það á liðunum sem detta oft út snemma, mörg stórlið jafnvel, ef þú ætlar að stækka kvennaboltann þá er þetta frábær viðbót. Þetta er þekkt í karlaboltanum og gott að sjá að við séum að stíga sömu skref.“
Munuð þið sækja til sigurs allt frá byrjun eða farið þið varlega inn í leikinn?
„Ég geri ráð fyrir að við förum varlega inn í leikinn, enda höfum við aldrei spilað við þær áður. Eins og ég minntist á þá höfum við aðeins skoðað þær á fundi, en Nik [Chamberlain, þjálfari Breiðabliks] á eftir að leggja nákvæmar línur hvernig við nálgumst leikinn. Ég er alltaf bjartsýn á sigur og það breytist ekkert,“ sagði fyrirliðinn ennfremur í samtali við Morgunblaðið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
