Ferill Andra Fannars Baldurssonar, landsliðsmanns í fótbolta, er loksins kominn á fullt eftir erfið undanfarin ár.
Andri byrjaði ungur að spila fyrir aðallið Bologna á Ítalíu en náði ekki að vinna sér inn fast sæti í byrjunarliðinu. Í kjölfarið fór hann að lán til nokkurra félaga, þar sem gekk misvel að fóta sig.
Miðjumaðurinn er nú loks kominn á góðan stað en hann var keyptur til Kasimpasa í Tyrklandi fyrir tímabilið og þar er hann í stóru hlutverki.
„Það var kominn tími á það og það gengur vel. Fyrstu þrír leikirnir voru ekki eins og við vildum en það hefur gengið vel í síðustu leikjum.
Við höfum verið að rífa okkur upp töfluna og ég er að spila allar mínútur. Mér líður vel í líkamanum og andlega líka. Leiðin liggur bara upp á við,“ sagði hann.
Andri tekur mikinn þátt í leikjum liðsins og fær traust frá þjálfaranum.
„Ég tek mikinn þátt í uppbyggingu sókna og á sama tíma að stöðva sóknir andstæðinganna. Ég fæ að stjórna leikjunum svolítið og það er rosalega gaman. Ég finn fyrir trausti frá þjálfaranum, sem er mjög góð tilfinning.“