Breiðablik vann frábæran 4:0 sigur á serbneska liðinu Spartak Subotica í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópubikars kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
Blikar byrjuðu leikinn af feiknakrafti og léku á móti vindi í fyrri hálfleik. Þær gerðu vel í að halda knettinum meðfram jörðinni, enda háar og langar sendingar erfiðar í þessum aðstæðum.
Leikáætlun serbneska liðsins í upphafi leiks var sú að verjast fyrir aftan boltann með ellefu leikmönnum, þar sem fremsti leikmaður var við miðjubogann á eigin vallarhelmingi. Hafi ætlunin verið að halda markinu hreinu í fyrri hálfleik varð Serbunum alls ekki kápan úr því klæðinu því Breiðablik braut ísinn strax á 8. mínútu.
Agla María Albertsdóttir þræddi boltann í gegnum vörn Spartak, inn á Andreu Rut Bjarnadóttur sem lagði boltann á markavélina Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem skoraði af stuttu færi.
Aðeins tveimur mínútum síðar kom næsta mark. Samantha Smith slapp upp hægra megin og lagði boltann smekklega út í teiginn á Öglu Maríu Albertsdóttur sem hamraði boltanum í netið.
Eftir seinna markið steig serbneska liðið örlítið framar á völlinn og kom sér aðeins inn í leikinn. Fyrsta færi gestanna kom á 18. mínútu. Sara Vranic fékk frábæra sendingu afturfyrir vörn Blika og var kominn í dauðafæri en Devine varði vel í marki Blika.
Nokkuð jafnfræði var með liðunum næstu mínútur og færin fá. Blikar gerðu ágætlega í uppspili sínu og héldu boltanum að mestu leyti vel innan liðsins, en lentu stöku sinnum í smávægilegum vandræðum, enda boltinn fljótur að fjúka útaf um leið og honum var lyft frá jörðu.
Serbneska liðið átti ágæta spretti á köflum en sköpuðu sjaldan hættu við mark Breiðabliks. Þær léku með vindi og þegar þeim gafst tækifæri á að sækja hratt voru sendingarnar iðulega of fastar.
Á 38. mínútu skapaðist hætta við mark Breiðabliks. Serbarnir sendu langan bolta fram úr vörninni, þar sem Vranic náði að pota stóru tánni í boltann en Devine var kominn vel út úr markinu og handsamaði boltann.
Staðan 2:0 í hálfleik og Breiðablik í prýðilegri stöðu fyrir síðari hálfleikinn.
Seinni hálfleikur fór rólega af stað og nú voru það Serbarnir sem léku á móti vindi. Blikar gerðu ágætlega í að vinna marga seinni bolta í upphafi hálfleiksins og náðu að þrýsta liði Spartak aftarlega á völlinn.
Birta Georgsdóttir átti frábæra skottilraun rétt utan vítateigs þegar seinni hálfleikur var átta mínútna gamall, eftir að Blikar höfðu unnið boltann á vallarhelmingi gestanna. Fast skot hennar smaug rétt yfir markið.
Breiðablikskonur voru óhræddar við að nýta sér vindinn í síðari hálfleik og létu þær vaða ótt og títt á markið fyrir utan vítateig, sem var sjálfsagt að gera.
Serbarnir komust lítt áleiðis og sóknir þeirra voru frekar fáar og runnu allar út í sandinn. Þær áttu í vandræðum með að spila gegn vindinum.
Að sama skapi vantaði smá útsjónarsemi í leik Breiðabliks. Þær féllu í þá gryfju að sækja of mikið í gegnum miðjuna og vantaði að nýta breidd vallarins betur. Serbneska liðið varðist ágætlega fyrri hluta seinni hálfleiks.
Agla María Albertsdóttir fékk gott tækifæri þegar Blikar fengu aukaspyrnu um tuttugu metra frá marki en spyrna Öglu var því miður mjög slök og fór vel framhjá markinu.
Eftir nokkra ládeyðu náði Breiðablik að bæta við marki á 78. mínútu. Kom það eftir frábæran undirbúning hjá Birtu Georgsdóttur. Birta náði af miklu harðfylgi að koma boltanum á Öglu Maríu sem potaði honum í netið á nærstönginni.
Líf Joostdóttir van Bemmel var ein þeirra varamanna sem komu inn á hjá Blikum í síðari hálfleik og hleyptu þær krafti í leik Blika. Líf var nálægt því að skora á 85. mínútu. Hún lék þá á varnarmenn Spartak en þurfti að teygja sig í boltann og náði ekki nægilega góðu skoti og Suhee Kang markvörður Spartak varði í horn.
Síðasta mark Blika í leiknum var einkar glæsilegt og er óhætt að segja að tveir varamenn hafi átt það skuldlaust.
Edith Kristín Kristjánsdóttir lék þá auðveldlega framhjá varnarmönnum Spartak og sendi boltann fyrir á Sunnu Rún Sigurðardóttur sem setti boltann auðveldlega í markið af stuttu færi á 90. mínútu. Þetta var fyrsta mark Sunnu fyrir meistaraflokk Breiðabliks.
Öruggur og sannfærandi sigur Breiðabliks var því staðreynd og ljóst að Blikar fara með frábært veganesti í síðari leikinn í Serbíu. Hann fer fram eftir slétta viku, miðvikudaginn 15. október.