Breiðablik mætir Spartak Subotica á Kópavogsvelli í dag kl. 18:00 í Evrópubikar kvenna í fótbolta. Þetta er fyrri leikurinn í einvíginu en liðin mætast aftur í Serbíu viku síðar. Sigurliðið fer áfram í 16-liða úrslit.
Mbl.is ræddi við Nik Chamberlain þjálfara Breiðabliks í aðdraganda leiksins á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í gær.
Hvernig hefur undirbúningi ykkar verið háttað fyrir leikinn á morgun?
„Undirbúningurinn hefur verið góður. Við gáfum tveggja daga frí eftir Víkingsleikinn og ég var þakklátur fyrir það að við gátum spilað á föstudegi frekar en laugardegi eins og upphaflega stóð til.
Ég er ánægður með að fólk átti sig á mikilvægi þess fyrir íslenskan fótbolta að hækka okkur á styrkleikalista knattspyrnusambands Evrópu og að fá auka frídag er mikilvægt. Við höfum undirbúið okkur vel og við sjáum til hverju það skilar okkur í leiknum.“
Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn síðasta föstudag með 3:2-sigri á Víkingi úr Reykjavík í 21. umferð Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli.
Var ekki dýrmætt að þið hafið náð að tryggja ykkur Íslandsmeistaratitilinn á föstudag?
„Jú tvímælalaust, gríðarlega mikilvægt. Annars hefðum við möguleika nálgast leikinn á morgun öðruvísi. Nú getum við einbeitt okkur að nýrri áskorun í Evrópukeppninni.“
Eru allir leikmenn heilir?
„Þær eru allar klárar og tilbúnar að spila og vonandi höldum við áfram að spila vel eins og við höfum gert að undanförnu.“
Þú ert augljóslega ánægður með frammistöðu þíns liðs í sumar.
„Já, himinlifandi. Augljóslega höfum við tapað einhverjum leikjum en í 99% tilfella hef ég verið ánægður með frammistöðu liðsins, líka í Evrópuleikjunum í undankeppni Meistaradeildarinnar. Þetta hefur verið stórkostlegt tímabil, leikmenn hafa lagt á sig gríðarlega vinnu frá því í nóvember á síðasta ári.“
Ný Evrópukeppni, Evrópubikarinn, fer fram í fyrsta skipti tímabilið 2025-2026 en sú keppni tekur meðal annars við liðum sem detta snemma úr Meistaradeildinni.
Blikar töpuðu fyrir Twente í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu og koma nú inn í Evrópubikarinn, en Blikar sátu hjá í 1. umferð Evrópubikarsins. Lið Spartak Subotica sigraði albanska félagið Partizani samanlagt 8:0 í 1. umferð Evrópubikarsins.
Hvernig meturðu styrkleika og veikleika andstæðinga ykkar?
„Þær eru með nokkra landsliðsmenn. Framherji liðsins, leikmaður nr.10 spilar fyrir serbneska landsliðið. Hún er með mikinn hraða og er tæknilega góður leikmaður. Svo er það Maria Radojicic sem spilaði með Fylki í sumar, hún er virkilega hæfileikaríkur leikmaður.
Þær eru með öfluga kantmenn sem hafa góðan hraða og eru með leikreynda leikmenn í varnarlínunni. Spartak-liðið hefur á að skipa leikmönnum sem geta valdið usla, en krafturinn og hraðinn í okkar liði á að geta komið okkur í stöður til að skapa góð marktækifæri. Svo er það undir okkur komið að nýta okkur þau tækifæri.“
Þú ert sem sagt bjartsýnn á að fara áfram úr einvíginu?
„Já. Ég hef fulla trú á að við stöndum uppi sem sigurvegarar eftir þessa tvo leiki,“ sagði Nik Chamberlain.