Varla hætt að skora síðan

Sævar Atli ræðir við mbl.is.
Sævar Atli ræðir við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég skoraði í fyrsta leik og hef varla hætt að skora síðan,“ sagði Sævar Atli Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður Brann í Noregi, í samtali við mbl.is.

Sævar kom til Brann fyrir tímabilið frá Lyngby í Danmörku og hefur slegið í gegn í Bergen og raðað inn mörkunum í norsku deildinni og Evrópukeppnunum.

„Þegar maður skorar fær maður athygli. Ég er búinn að vinna mér inn sæti í liðinu, sem er erfitt því hópurinn er breiður.

Mér finnst ég hafa spilað marga mikilvæga leiki í Evrópukeppni og í deildinni. Vonandi heldur þetta góða gengi áfram,“ sagði Sævar.

Hann hefur skorað fimm mörk í sjö leikjum í Evrópukeppnum á leiktíðinni.

„Það er ógeðslega gaman. Við vorum með markmið um að komast í Sambandsdeildina en við komumst í Evrópudeildina sem er miklu betri og stærri deild. Við erum bara að mæta frábærum liðum og það er skemmtilegast.

Það var fullur völlur þegar maður var að byrja að hita upp og það er auðvelt að gíra sig upp í þá leiki. Það er mikið álag en það er skemmtilegra að spila en að æfa,“ sagði Sævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert