Víkingar krækja í efnilegan framherja

Björgvin Brimi Andrésson er genginn í raðir Víkinga.
Björgvin Brimi Andrésson er genginn í raðir Víkinga. Ljósmynd/Víkingur

Knattspyrnumaðurinn Björgvin Brimi Andrésson hefur skrifað undir samning við nýkrýnda Íslandsmeistara Víkings út árið 2029 en hann kemur frá Gróttu. Víkingar greina frá þessu á miðlum sínum í dag.

Björgvin Brimi sem er aðeins 17 ára gamall spilaði tvo leiki með KR-ingum í Bestu deildinni á síðustu leiktíð, þá aðeins 16 ára. Í ár lék Björgvin með uppeldisfélagi sínu Gróttu í 2. deild þar sem hann skoraði 8 mörk í 20 leikjum. Grótta endaði í 2. sæti í 2. deild karla og tryggði sér sæti í Lengjudeildinni á nýjan leik.

Björgvin Brimi hefur spilað 12 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim tvö mörk.

Í tilkynningu Víkinga segir: „Björgvin Brimi er teknískur leikmaður sem spilar framarlega á vellinum og getur spilað á kantinum eða sem framherji.“

Eldri bróðir Björgvins Brima er Benoný Breki Andrésson sem sló markamet efstu deildar með KR í fyrra en hann leikur nú með Stockport í ensku C-deildinni.

„Björgvin Brimi er spennandi leikmaður sem við höfum verið að fylgjast með. Hann er snöggur, teknískur og getur leyst fleiri en eina stöðu. Við hlökkum til að fylgjast með honum í Víkingstreyjunni og þróa hann sem leikmann. Hann er með alla burði til að verða frábær leikmaður fyrir Víking,“ segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert