Arnar: Kostar örugglega meira en allt íslenska landsliðið

Illia Zabarnyi og Arnar Gunnlaugsson.
Illia Zabarnyi og Arnar Gunnlaugsson. Samsett/Franck Fife & Alex Nicodim

„Úkraína er með marga mjög góða leikmenn, toppleikmenn sem spila með toppliðum í evrópskum fótbolta og víðar,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, um mótherja morgundagsins í undankeppni HM 2026.

„Þeir eru með [Illia] Zabarnyi sem fór til París Saint-Germain og kostar örugglega meira en allt liðið okkar til samans. [Artem] Dovbyk, senterinn hjá Roma. [Oleksandr] Zinchenko er kannski frægastur því við fylgjumst mest með enska boltanum.

Það eru bara hörkuleikmenn í þessu liði. Þetta er lið sem við þurfum að virða mjög mikið til þess að eiga möguleika á morgun.

Það má kannski líka bæta við að þjálfarinn þeirra, [Sergei] Rebrov, er mjög flottur þjálfari. Ég er það gamall að ég man eftir honum þegar ég var að spila. Hann og [Andriy] Shevchenko saman í framlínu úkraínska liðsins,“ sagði Arnar um úkraínska liðið.

Zabarnyi var keyptur á tæplega 66 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 9,3 milljarða íslenskra króna.

Frábært landslið í 28. sæti FIFA-listans

Spurður hvort hann þekki Rebrov persónulega og hefði rætt við hann fyrir leikinn sagði Arnar:

„Ég þekki hann ekki. Ég hef bara fylgst með hans ferli og hef alltaf dáðst að honum sem leikmanni. Hann er búinn að gera góða hluti með landsliðið. Þetta er frábært landslið sem er í 28. sæti á heimslistanum, töluvert fyrir ofan okkur.

Þetta er topplið sem átti góðan leik á móti Frökkum. Svo gerist það bara í Aserbaídsjan sem gerist stundum á erfiðum útivöllum að þeir náðu ekki að klára þann leik.

Þeir koma hingað kannski ekki alveg með þann meðbyr sem þeir hefðu viljað. Við höfum hann kannski með okkur. Vonandi náum við að nýta það að þeir eru ekki alveg með kassann úti eins og okkar leikmenn í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert