„Fyrstu vikurnar hafa verið mjög góðar,“ sagði landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson í samtali við mbl.is um fyrstu vikurnar hjá þýska knattspyrnuliðinu Köln.
Ísak skipti yfir til Köln frá Düsseldorf í sumar en Köln er nýliði í efstu deild á meðan Düsseldorf er í B-deildinni. Byrjunin hjá Köln hefur komið mörgum á óvart.
„Við erum í sjötta sæti í deildinni og mér líður vel inni á vellinum. Þjálfarinn gefur mér gott hlutverk og það er erfitt að spila við okkur.
Utan vallar líður okkur kærustunni líka mjög vel. Ég gæti ekki beðið um betri byrjun,“ sagði Ísak. Stutt er á milli Kölnar og Düsseldorf og auðvelt fyrir miðjumanninn að aðlagast nýrri borg.
„Þetta er mjög svipað. Þetta er 40 mínútna akstur þarna á milli. Düsseldorf er meiri lúxusborg, þar er hægt að versla mikið á meðan Köln er risastórborg, sú fjórða stærsta í Þýskalandi. Annars er þetta svipað og menningin er svipuð.“
Stuðningsmenn Düsseldorf voru vægast sagt ósáttir við Ísak eftir félagaskiptin þar sem mikill rígur er á milli Düsseldorf og Kölnar. Það fer lítið fyrir Skagamanninum þegar hann kíkir í gömlu heimaborgina.
„Ég fer stundum í klippingu þangað, klipparinn minn er í Düsseldorf og þá set ég hettuna á mig. Ég læt ekki sjá mig á vinsælum veitingastöðum eða á göngugötum,“ sagði hann.