Andri Fannar Baldursson er loksins kominn aftur í íslenska landsliðið í fótbolta eftir fjarveru en hann hefur undanfarin ár verið fyrirliði U21 árs landsliðsins.
„Ég hef saknað þess lengi. Á sama tíma var ég fyrirliði U21 árs landsliðsins og ég tók því hlutverki fagnandi.
Nú er ég kominn hingað og ég er rosalega spenntur fyrir þessum tveimur leikjum. Liðið er á góðum stað, það er góður andi og þjóðin er á bak við okkur. Ég get ekki beðið,“ sagði Andri við mbl.is.
Ísland leikur við Úkraínu á föstudagskvöld og Frakkland á mánudagskvöld í undankeppni HM. Uppselt er á báða leiki eftir gott síðasta verkefni.
„Það er ekkert skemmtilegra en þegar landsliðinu gengur vel og þjóðin er alveg á bak við okkur. Við viljum halda þessum meðbyr áfram.
Við stefnum á að vinna Úkraínu. Það verður erfiður leikur en við verðum að nýta okkur meðbyrinn og að þetta sé á heimavelli,“ sagði hann.
Ísland mátti þola naumt tap fyrir Frakklandi á útivelli í síðasta verkefni, 2:1, eftir heimasigur á Aserbaídsjan, 5:0.
„Ég horfði á Frakkaleikinn og var mjög spenntur og stressaður á sófanum. Strákarnir stóðu sig rosalega vel. Það var mikið um jákvæða hluti en á sama tíma hluti sem við getum bætt.
Við viljum nýta það að spila á heimavelli. Það verður kalt fyrir Frakkana sem geta verið hrokafullir. Við viljum byrja á krafti og sýna að það verður ekkert gefins á Laugardalsvelli,“ sagði hann.
Andri Fannar er spenntur fyrir því að vinna meira með landsliðsþjálfaranum Arnari Gunnlaugssyni.
„Arnar er geggjaður. Ég er búinn að fylgjast með honum lengi. Hann veit hvað hann vill og útskýrir allt vel. Fyrstu dagarnir eru geggjaðir.“