Þrífst í öðruvísi pressu

Sævar Atli Magnússon ræðir við mbl.is.
Sævar Atli Magnússon ræðir við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sævar Atli Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta, er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum en hann hefur raðað inn mörkum fyrir Brann í Noregi.

Leiknismaðurinn uppaldi var ungur að árum þegar hann var byrjaður að skora grimmt fyrir uppeldisfélagið og var hann keyptur til Lyngby í kjölfarið. Þar var hann í stóru hlutverki en eftir komuna til Brann hefur hann verið algjörlega óstöðvandi.

„Ég var hjá Leikni og þá vorum við yfirleitt litla liðið og það sama má segja með Lyngby. Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila með toppliði, liðið sem á að vinna alla heimaleiki og flesta útileiki líka.

Það er öðruvísi pressa og ég er búinn að þrífast vel í henni. Ég fæ mikið af færum og nýti þau vel. Ég þarf ekki að spila eins mikinn varnarleik. Ég er í liði sem er meira með boltann og sækir meira,“ sagði Sævar um tímann hjá Brann.

Sævar Atli Magnússon
Sævar Atli Magnússon mbl.is/Ólafur Árdal

Mikil pressa er í Bergen og þá sérstaklega hjá norskum fjölmiðlum.

„Það eru aðallega fjölmiðlarnir. Þeir eru mjög kröfuharðir, sem er bara fínt. Það er mikil ástríða hjá stuðningsmönnum en þeir eru alltaf með okkur.

Við töpuðum 3:0 um helgina og fjölmiðlarnir voru allir mættir og vildu fá eitthvað út úr okkur og gera stórar fréttir,“ sagði hann.

Gott að vera með Íslendinga

Sævar hefur langstærstan hluta ferilsins sem atvinnumaður erlendis verið með að minnsta kosti einn Íslending með sér. Hjá Brann spilar hann fyrir Frey Alexandersson og er samherji Eggerts Arons Guðmundssonar.

„Það er klárlega betra. Það er gott að geta talað íslensku og nú er ég með Eggert og þetta er í fyrsta skipti sem ég er með einhvern ungan með mér og það er frábært.

Hann er mjög góð manneskja og geggjaður í fótbolta. Svo er fínt að vera með Freysa og ég veit hvað hann stendur fyrir,“ sagði Sævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka