Þórir Jóhann Helgason, 25 ára landsliðsmaður í fótbolta, hefur verið samningsbundinn ítalska félaginu Lecce frá árinu 2021.
Hann verður samningslaus eftir tímabilið og þrátt fyrir að líða vel utan vallar er staðan innan vallar ekki eins góð, þar sem miðjumaðurinn fær lítið að spila um þessar mundir.
„Lífið í Lecce hefur verið gott síðan ég kom þangað. Það er mjög góður staður og mér liður vel. Það er alltaf sól og gott veður.
Ég sakna íslenska veðursins stundum, að fá rigninguna í andlitið og vindinn. Íslendingurinn fer ekkert úr manni,“ sagði Þórir léttur við mbl.is áður en talið barst um lítinn spiltíma á Ítalíu.
„Ég er ekki að spila mikið eins og er og á eitt ár eftir af samning. Ég tek stöðuna bráðum með þeim og mínum yfirmanni og framhaldið kemur í ljós.“
Þórir spilaði meira á síðasta tímabili en hefur ekki verið eins mikið í myndinni á yfirstandandi leiktíð.
„Ég er ekki búinn að fá skýringu. Manni finnst stundum skilið að eiga að fá að spila meira. Stundum henta sumir leikmenn betur í suma leiki,“ sagði Hafnfirðingurinn.