Aldrei séð svona áður

Ísak fagnar marki í kvöld.
Ísak fagnar marki í kvöld. mbl.is/Eyþór

Ísak Bergmann Jóhannesson var eins og aðrir Íslendingar svekktur eftir 5:3-tap á heimavelli gegn Úkraínu í undankeppni HM í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Úkraínumenn nýttu færin sín gríðarlega vel og refsuðu illa fyrir mistök íslenska liðsins.

„Þetta var ótrúlegur leikur. Við fengum á okkur fimm mörk en þeir voru með 0,6 XG á okkur. Ég hef aldrei séð svona áður. Þeir áttu sex eða sjö skot og fimm fóru inn. Við vorum með stjórn á leiknum en við gefum þeim mörk,“ sagði Ísak.

Ísak reynir að stappa stáli í leikmenn Íslands í kvöld.
Ísak reynir að stappa stáli í leikmenn Íslands í kvöld. mbl.is/Eyþór

Úkraína skoraði tvö mörk í lok fyrri hálfleiks, það fyrra eftir mistök hjá Mikael Agli Ellertssyni og það seinna eftir slaka sendingu frá Ísaki.

„Mikael var mjög flottur í kvöld en það munu allir muna eftir mistökunum. Ég átti líka fínan leik en fólk man eftir mistökunum. Við verðum að lifa með því. Þetta er mjög súrt.

Ég tók þessa sömu sendingu ca fimm sinnum í leiknum og hún heppnaðist í öll skiptin nema þetta eina. Mér var refsað og svona er landsliðsfótbolti. Þetta er leikur mistaka og það er ótrúlegt að þeir hafi skorað fimm mörk,“ sagði Skagamaðurinn og hélt áfram:

„Mér leið mjög vel í leiknum og við Hákon stjórnuðum honum vel, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Það var vont að fá á sig þessi mörk í lok fyrri hálfleiks.

Albert er svo geggjaður, jafnar í 3:3 en svo kemur kjaftshöggið aftur. Við verðum svekktir í kvöld en svo er það bara áfram gakk. Við lærum af þessu,“ sagði Ísak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert