„Maður heldur alltaf að maður hafi séð allt í þessu en svo sér maður svona leik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlandsliðsins í fótbolta, á blaðamannafundi á Laugardalsvelli eftir leik Íslands og Úkraínu í D-riðli undankeppni HM 2026 í Laugardalnum í kvöld.
Leiknum lauk með naumum sigri Úkraínu, 5:3, þar sem íslenska liðinu tókst tvívegis að jafna metin en tveir slæmir kaflar hjá Íslandi, undir lok fyrri hálfleiks og undir lok leiksins, gerðu það að verkum að Úkraína fagnaði sigri.
„Við vorum frábærir á köflum og mér líður hálfpartinn eins og þeir hafi skorað úr hverju einasta færi sem þeir fengu. Vissulega voru þetta frábær skot hjá þeim og skottæknin var ótrúleg en svona getur leikurinn verið grimmur.
Þetta var bara frík leikur. Ég fór yfir tölfræðina eftir leikinn og hún var góð. Við spiluðum vel, vorum sterkir í okkar uppspili og það er erfitt að kyngja þessum úrslitum. Að fá á sig fimm mörk og tapa er sárt því mér fannst frammistaðan virkilega góð,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
Íslenska liðið fékk á sig tvö mörk með tveggja mínútna millibili í fyrri hálfleik og sagan endurtók sig í síðari hálfleik þar sem Úkraína komst yfir, 4:3, á 85. mínútu og bætti svo við fimmta markinu þremur mínútum síðar.
„Við hefðum þurft að hafa meiri stjórn á eigin tilfinningum. Við erum að spila á ungum strákum og það var gaman hjá þeim. Þeir urðu æstir en þetta var akkúrat augnablikið þar sem við hefðum þurft að stjórna aðstæðunum betur.
Það voru fimmtán mínútur eftir þegar við jöfnum í 3:3. Þeir urðu skelkaðir og við hefðum átt að ganga á lagið þarna. Við þurfum að vera klókari þegar við erum í svona stöðu því eftir á hefði 3:3 alls ekki verið slæm úrslit fyrir okkur,“ sagði Arnar á blaðamannafundi eftir leikinn á Laugardalsvelli.