Arnar: „Leiðist að segja þetta“

Hákon Arnar Haraldsson og Arnar Gunnlaugsson á fréttamannafundi í höfuðstöðvum …
Hákon Arnar Haraldsson og Arnar Gunnlaugsson á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær. mbl.is/Eyþór

„Auðvitað vill maður helst að allir okkar strákar séu í toppformi en þetta hefur einhvern veginn verið þannig síðustu ár og í öllum mínum gluggum,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fréttamannafundi í gær.

Þar var hann spurður út í Stefán Teit Þórðarson, sem hefur lítið sem ekkert fengið að spila með liði sínu Preston North End að undanförnu.

„Það eru alltaf einn eða tveir, jafnvel þrír, sem eru ekki fastamenn hjá sínum liðum. Ég held að það sé bara út af stærð þjóðarinnar. Mér leiðist að segja þetta en ef við værum að tala um enska, þýska eða franska leikmenn þá eru þeir bara fastamenn í öllum sínum liðum,“ sagði Arnar.

Þetta stef þarf að breytast

„En hjá okkur virðist þetta vera smá stef og til þess að taka skref áfram og verða betri þarf þetta stef að breytast. Við þekkjum þetta allir með leikmenn, það eru mismunandi ástæður fyrir því hvers vegna þeir eru ekki að spila.

Það er eitthvað sem ég get ekki svarað fyrir hans hönd en klárlega er þetta mikilvægur leikmaður í okkar hópi. Hann stendur sig mjög vel hjá okkur.

Þetta er leiðinleg staða, bæði fyrir hann og einhverja fleiri sem lenda í þessu. En það er bara eins og alltaf, áfram gakk, taka þetta á kassann og halda áfram,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert