Arnar: „Þeir voru frekar þunnir“

Arnar Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum árið 2023 ásamt dóttur sinni.
Arnar Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum árið 2023 ásamt dóttur sinni. mbl.is/Óttar

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var í skýjunum með fyrrverandi lærisveina sína í Víkingi úr Reykjavík sem urðu Íslandsmeistarar í þriðja sinn á fimm árum síðastliðið sunnudagskvöld.

Arnar tók við landsliðinu að loknu síðasta tímabili eftir að hafa náð frábærum árangri með Víkingi, þar sem tveir Íslandsmeistaratitlar og fjórir bikarmeistaratitilar litu dagsins ljós undir hans stjórn.

„Það var mjög gaman. Ég er ótrúlega stoltur af klúbbnum, Sölva [Geir Ottesen þjálfara] og teyminu. Það gekk erfiðlega að óska þeim til hamingju morguninn eftir. Þeir voru frekar þunnir kapparnir. En þetta er bara geggjað fyrir félagið.

Það er ótrúleg stemning sem myndaðist. Fyrir mig persónulega var þetta eins og að sjá barnið sitt halda áfram að gera góða hluti. Það var eiginlega meiri gleði heldur en að vinna sjálfur. Framtíð félagsins er í topp, topp, topp málum,“ sagði Arnar á fréttamannafundi í gær.

Ísland mætir Úkraínu í undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli klukkan 18.45 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert