Endurkoma Íslands dugði ekki í átta marka leik

Ísland mátti þola tap, 5:3, gegn Úkraínu í 3. umferð í D-riðlinum í undankeppni HM karla í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld.

Frakkland er í toppsæti riðilsins með níu stig, Úkraína í öðru með fjögur, Ísland í þriðja með þrjú og Aserbaídsjan rekur lestina með eitt stig.

Úkraínumenn byrjuðu betur og Ruslan Malinovskyi skoraði fyrsta markið á 14. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir mikinn sprett hjá Vitaliy Mykolenko.

Íslenska liðið svaraði vel og var mikið sterkari aðilinn eftir markið. Albert Guðmundsson var nálægt því að jafna á 28. mínútu en skaut í slá af stuttu færi eftir sendingu frá Daníel Leó Grétarssyni.

Albert Guðmundsson fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Úkraínu í kvöld og …
Albert Guðmundsson fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Úkraínu í kvöld og sínu öðru marki í leiknum. mbl.is/Eyþór

Íslenska liðið hélt áfram að sækja og Mikael Egill Ellertsson jafnaði á 35. mínútu með glæsilegu einstaklingsframtaki. Hann fékk þá boltann á vinstri kantinum, lék á varnarmann og skoraði með góðu skoti úr þröngu færi.

Því miður fyrir Mikael þá átti hann sök í öðru marki Úkraínu á lokamínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik þegar hann hitti ekki boltann í teignum er hann reyndi að hreinsa. Oleksii Hutsuliak refsaði og skoraði af stuttu færi.

Nokkrum andartökum síðar kom Malinovskyi Úkraínu með 3:1 með góðu skoti utan teigs eftir slaka sendingu frá Ísaki Bergmanni Jóhannessyni og var staðan í leikhléi 3:1, sem gaf ekki rétta mynd af leiknum.

Albert Guðmundsson fagnar eftir að hafa minnkað muninn fyrir Ísland …
Albert Guðmundsson fagnar eftir að hafa minnkað muninn fyrir Ísland í kvöld. mbl.is/Eyþór

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Albert Guðmundsson minnkaði muninn í 3:2 með skalla af stuttu færi á 59. mínútu eftir fyrirgjöf frá Hákoni Arnari Haraldssyni.

Ísland stýrði ferðinni eftir markið og reyndi hvað það gat á meðan úkraínska liðið reyndi hvað það gat til að halda fengnum hlut.

Það tókst ekki því Albert skoraði sitt annað mark er hann jafnaði í 3:3 á 75. mínútu með góðri afgreiðslu í teignum eftir fyrirgjöf frá varamanninum Loga Tómassyni frá vinstri og sendingu frá Andra Lucas Guðjohnsen.

Mikael Egill Ellertsson jafnar metin fyrir Ísland í kvöld.
Mikael Egill Ellertsson jafnar metin fyrir Ísland í kvöld. mbl.is/Eyþór

Það voru hins vegar Úkraínumenn sem skoruðu næsta mark og það gerði Ivan Kaliuzhnyi á 85. mínútu með skoti utan teigs eftir að Hákon Arnar skallaði frá eftir fyrirgjöf frá hægri.

Þremur mínútum síðar kom Oleh Ocheretko Úkraínu svo aftur í tveggja marka forystu með skoti fyrir utan teigs og þar við sat. 

Ísland 3:5 Úkraína opna loka
90. mín. Gísli Gottskálk Þórðarson (Ísland) á skot sem er varið Nálægt! Fast skot og boltinn virðist stefna í markið en gestirnir bjarga á línu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert