„Við skorum þrjú mörk og það ætti að vera nóg til að vinna á heimavelli,“ sagði Elías Rafn Ólafsson, markmaður íslenska landsliðsins í fótbolta eftir 5:3-tap gegn Úkraínu í undankeppni HM á heimavelli í kvöld.
„Þetta er skrítið, okkar tilfinning og mín tilfinning er að við værum með stjórn á leiknum en svo fáum við á okkur þessi mörk sem eru ódýr og þetta er allt skrítið, mjög skrítinn leikur
Það að sækja boltann fimm sinnum í netið í leik þegar þeir eru með fimm eða sex skot er skrítið og ekki nógu gott, að fá á sig fimm mörk á heimavelli,“ sagði Elías í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
„Sóknarleikurinn var góður og við náum að hafa stjórn á leiknum og pinna þá niður en þegar maður fær fimm mörk þá er erfitt að ná í stig.
Þetta er eitthvað sem við þurfum að kíkja á, það er stutt í næsta leik og við þurfum að laga það sem við verðum að laga. Þetta má ekki gerast á heimavelli.“
Ísland er í þriðja sæti í D-riðli, einu stigi á eftir Úkraínu og mætir Frakklandi í næsta leik.
„Þetta er alls ekki búið. Við stóðum í Frökkunum síðast og við ætlum að reyna að gera það aftur á mánudaginn og ná í stig. Við þurfum að fara að ná í stig í riðlinum því þetta er ekki búið.“