Íslenska karlalandsliðið í fótbolta ætlar að leggja allt í sölurnar til þess að knýja fram sigur í kvöld þegar liðið mætir Úkraínu í 3. umferð D-riðils undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli klukkan 18:45.
Þetta tilkynnti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska liðsins, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær en Ísland er í öðru sæti riðilsins með 3 stig á meðan Úkraína er í þriðja sætinu með eitt stig. Frakkland trónir á toppnum með 6 stig eða fullt hús stiga en Aserbaísjan er í neðsta sætinu með 1 stig.
Íslenska liðið hóf undankeppnina á stórsigri gegn Aserbaísjan, 5:0, á Laugardalsvelli en tapaði svo naumlega fyrir Frakklandi, 2:1, í París í Frakklandi í 2. umferðinni í septemberglugganum.
Á sama tíma tapaði Úkraína fyrir Frakklandi, 2:0, í Wroclaw í Póllandi þar sem liðið leikur heimaleiki sína vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Í 2. umferðinni gerði Úkraína svo nokkuð óvænt jafntefli við Aserbaísjan í Bakú, 1:1.
„Allir leikmenn íslenska liðsins eru heilir heilsu og klárir í bátana,“ sagði Arnar Gunnlaugsson á blaðamannafundinum á Laugardalsvelli í gær.
„Stemningin í hópnum hefur alltaf verið góð frá því að ég tók við liðinu og hún er mjög góð núna. Við erum auðmjúkir og þakklátir fyrir það hversu vel þjóðin hefur tekið við sér. Það er uppselt á báða leikina og það eykur bæði vonir og væntingar leikmannanna um að standa sig vel. Þeir eru að láta ljós sitt skína inni á vellinum núna, sem er frábært.
Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel og það eru allir á tánum. Hver einn og einasti leikmaður liðsins er meðvitaður um mikilvægi leiksins gegn Úkraínu. Þessir strákar eru ekkert vitlausir og þeir vita það að með sigri á morgun erum við komnir í ansi vænlega stöðu upp á framhaldið að gera,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
Úkraína er sem stendur í 28. sæti á styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, en liðið var í 25. sæti listans í ársbyrjun. Þá var liðið í 22. sæti heimslistans í ársbyrjun 2024 en Úkraína var í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla fyrir undankeppni HM á meðan Ísland var í þriðja styrkleikaflokki.
Íslenska liðið er í 74. sæti listans og hefur ekki verið neðar síðan í mars árið 2013 þegar Ísland var í 92. sæti heimslistans.
Það er ekki langt síðan Ísland og Úkraína mættust síðast en það var í mars á síðasta ári þegar liðin léku úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu 2024.
Leiknum, sem fram fór í Wroclaw í Póllandi á heimavelli Úkraínu, lauk með sigri úkraínska liðsins, 2:1. Albert Guðmundsson kom íslandi yfir á 30. mínútu með frábæru einstaklingsframtaki en Viktor Tsgyankov jafnaði metin fyrir Úkraínu á 54. mínútu áður en Mykhailo Mudryk skoraði sigurmark leiksins á 84. mínútu og skaut Úkraínu áfram í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fór í Þýskalandi.
Þónokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahóp íslenska liðsins frá leiknum í Wroclaw og þá er Arnar Gunnlaugsson tekinn við liðinu en Norðmaðurinn Åge Hareide stýrði Íslandi í úrslitaleiknum gegn Úkraínu.
Af þeim 23 leikmönnum sem voru í hópnum gegn Úkraínu fyrir 19 mánuðum eru 15 þeirra í hópnum í dag. Af þeim ellefu leikmönnum sem byrjuðu leikinn eru átta þeirra í hópnum en þeir Guðmundur Þórarinsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason voru ekki valdir að þessu sinni.
Fleiri breytingar hafa átt sér stað hjá Úkraínu á þessum 19 mánuðum en af þeim 23 leikmönnum sem landsliðsþjálfarinn Serhiy Rebrov valdi í mars á síðasta ári eru 14 þeirra í hópnum í dag. Af þeim ellefu leikmönnum sem byrjuðu síðasta landsleik liðanna eru tveir þeirra fjarverandi, markvörðurinn Andiy Lunin sem leikur með Real Madrid og markaskorarinn Mykhailo Mudryk sem gæti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára keppnisbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi í desember á síðasta ári.
Ísland og Úkraína hafa mæst í fimmgang frá árinu 1999 og Ísland hefur einu sinni fagnað sigri. Það var í september árið 2017 á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2018 þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í 2:0-sigri. Aron Einar Gunnarsson og Sverrir Ingi Ingason eru þeir einu í núverandi leikmannahóp Íslands sem voru í hópnum gegn Úkraínu fyrir átta árum.
Þá hefur Úkraína tvívegis fagnað sigri í viðureignum liðanna og tvívegis hafa liðin gert jafntefli.
„Eins og staðan er í riðlinum í dag þá myndi sigur á morgun setja okkur í mjög vænlega stöðu upp á framhaldið að gera og sérstaklega gagnvart Úkraínu. Ég held að allir átti sig á því að baráttan um þetta annað sæti riðilsins er á milli okkar annars vegar og Úkraínu hins vegar, án þess að ætla að gera eitthvað lítið úr Aserbaísjan. Við getum að einhverju leyti eyðilagt drauma Úkraínu með sigri.
Þeir áttu góðan leik á móti Frökkum en svo lenda þeir í því á útivelli gegn Aserbaísjan, sem vill stundum gerast á erfiðum útivöllum, að þeir ná ekki að klára leikinn. Þeir eru kannski ekki alveg með jafn mikinn vind í seglunum eins og við á þessum tímapunkti. Okkar leikmenn eru með kassann úti eftir síðasta landsleikjaglugga, á meðan úkraínska liðið er kannski aðeins meira með kassann inn, og vonandi náum við að nýta okkur það.“
Jafntefli yrðu ekki slæm úrslit heldur, fyrir bæði lið, en við erum með mjög skýr markmið. Við ætlum okkur sigur og við munum leggja allt í sölurnar til þess að knýja fram sigur.“
Landsliðsþjálfarinn vildi ekki gefa of mikið upp þegar hann ræddi leik morgundagsins en hann stillti upp í leikkerfið 4-3-3 gegn Aserbaísjan og í leikkerfið 4-4-2 gegn Frökkum.
„Við stýrðum leiknum á móti Aserbaísjan á meðan við þurftum að vera sterkari varnarlega og þjást aðeins meira gegn Frökkunum. Á móti Úkraínu verður þetta aðeins meira bland í poka. Ég skil ekki alltaf hvernig þessir strákar ná að meðtaka allar þær upplýsingar sem maður hendir í þá en á sama tíma eru þeir vanir því hjá sínum félagsliðum.
Þetta eru leikmenn í hæsta gæðaflokki og þessi leikkerfi í dag eru margslungin. Lið eru í raun að spila mörg leikkerfi í einum og sama leiknum. Þetta er ekki eins og í gamla daga þar sem 4-4-2 var bara 4-4-2. Það eina sem ég get sagt um leik morgundagsins er að við þurfum að vera sterkir í öllum þáttum leiksins. Þannig er alvöru lið og alvöru fótbolti,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson en blaðamaður spáir því að Arnar stilli upp sama byrjunarliði og hann gerði í 5:0-sigrinum gegn Aserbaísjan í síðasta mánuði.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
