„Þetta er gífurlega svekkjandi,“ sagði Sævar Atli Magnússon landsliðsmaður í fótbolta við mbl.is eftir tap gegn Úkraínu, 5:3, í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.
Ísland jafnaði í 3:3 eftir að Úkraína komst í 3:1 en gestirnir skoruðu tvö mörk á lokakaflanum og tryggðu sér stigin þrjú.
„Það er skrítið að þessi leikur endaði 5:3 því mér fannst hann frekar lokaður. Við leikgreinum þennan leik og verðum betri. Þeir refsa okkur illa og mörkin sem þeir skoruðu voru í háum gæðaflokki.
Mér leið vel í leiknum. Við héldum áfram því sem við vorum að gera eftir markið þeirra. Við jöfnum og hefðum mátt vera skynsamari og fara með 1:1 í hálfleikinn. Það var svo virkilega sterkt hvernig við komum til baka,“ sagði Sævar.
En hvernig fór íslenska liðið að því að jafna í 3:3 þegar staðan var orðin erfið?
„Í hálfleik töluðum við um að halda áfram að gera það sem við vorum að gera vel og komast í stöður til að gefa fyrirgjafir. Við vorum að opna þá og skoruðum annað og þriðja markið eftir fyrirgjafir.“
Sævar var í byrjunarliði landsliðsins í mótsleik í annað sinn og í fyrsta sinn á heimavelli.
„Þetta var allt í lagi. Ég reyndi að sýna kraft og það gekk ágætlega en ég hefði viljað komast í færi og skapa meira. Annars var þetta bara allt í lagi.“
Ísland leikur við Frakkland á mánudagskvöld og á síðan eftir útileiki við Úkraínu og Aserbaídsjan.
„Við eigum þrjá leiki eftir og þurfum sex stig. Það er klárlega hægt. Við gerum allt sem við getum til að ná úrslitum á móti Frökkunum,“ sagði hann