Þetta voru aulamistök

Hákon Arnar í leiknum í kvöld.
Hákon Arnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eythor Arnason

„Fín frammistaða en þegar þú færð á þig fimm mörk þá áttu ekki skilið að vinna leikinn,“ sagði Hákon Arnar Haraldsson fyrirliði íslenska karlalandsliðsins i fótbolta eftir 5:3-tap gegn Úkraínu í undankeppni HM á heimavelli í kvöld.

„Þetta er svekkjandi. Við fáum á okkur fimm mörk sem er ekki nógu gott en við skorum þrjú,“ sagði Hákon í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Hvað gerðist í þessum mörkum?

„Aulamistök sem þú mátt ekki gera á þessu stigi. Þeir refsa grimmilega. Þetta er vel gert hjá þeim, frábærir spyrnumenn og þeir gerðu vel þegar þeir komust í skyndisóknir og það þarf að hrósa þeim fyrir það.“

Mætið Frökkum næst á heimavelli, næst hvað takið þið með úr þessum leik?

„Sóknarleikinn og hvernig við byggðum sóknir upp. Skorum þrjú mörk en þurfum að læra af þessu, það er ekki boðlegt að fá á sig fimm mörk. Við þurfum að horfa á leikinn á morgun og læra af þessu og vera klárir í mánudaginn, það er bara annar leikur.“

Ísland mætir Frakklandi á mánudaginn en Frakkland vann síðasta leik liðanna 2:1.

Hefði átt að vera 2:2 finnst mér en við eigum helling í það. Sérstaklega hér á heimavelli fyrir framan allt fólkið. Við sýndum það úti að við eigum alveg í þá. Við spiluðum flottan varnarleik og þurfum að gera það aftur núna.

Ísland er núna í þriðja sæti í D-riðli með þrjú stig.

„Þetta var eini leikurinn sem við máttum ekki tapa en þetta er ekki búið núna, það er hellingur eftir og níu stig í pottinum. Það er bara að spýta í lófana núna og gera enn betur og þá er alltaf möguleiki í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert