„Við finnum alltaf fyrir pressu,“ sagði Serhiy Rebrov, þjálfari karlalandsliðs Úkraínu, á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Úkraínu í undankeppni HM í fótbolta sem fer fram á Laugardalsvelli í kvöld.
Leikurinn hefst klukkan 18.45 en Ísland er í öðru sæti D-riðilsins með þrjú stig og Úkraína í þriðja með eitt. Leikurinn á morgun er því virkilega mikilvægur og er mikil pressa á þjálfara Úkraínu að ná í góð úrslit.
„Mér finnst mikilvægt að leikmenn finni fyrir pressu. Þeir þurfa ekki að óttast það að tapa leiknum heldur reyna að gera allt til að vinna hann. Leikmenn verða að leggja sig fram. Þegar þú ert að spila á þessu stigi verður þú að standa þig,“ sagði Rebrov.
Blaðamaður frá Úkraínu sagði síðan að Ísland einblíndi mikið á sóknarleik þessa dagana en væri ekki að pæla eins mikið í varnarleiknum. Því var Rebrov ósammála.
„Ég verð að vera ósammála því. Ísland gerir bæði. Íslenska liðið er gott sóknarlið en kann líka að verjast vel. Við þurfum að vera reiðubúnir í alls konar,“ svaraði Rebrov.
